Qmen stúlkan valin 6. nóvember
Fyrirsætukeppnin Qmen stúlkan árið 2004 verður haldin 6. nóvember næstkomandi á skemmtistaðnum Traffic í Reykjanesbæ. Stúlkurnar sem taka þátt eru níu talsins og eru allar frá Suðurnesjum. Keppnin hefur verið haldin einu sinni áður en þó ekki með þessu sniði því aðeins var kosið á netinu síðast.
Þeir sem standa að keppninni eru Víkurfréttir og Mangó en stúlkurnar klæddust fötum frá þeim síðarnefndu á myndunum sem birtust í sumar. Val á stúlkunni er ekki eingöngu í höndum dómnefndar því netverjum gefst tækifæri á því að kjósa sína Qmen stúlku með því að velja Qmen merkið til hægri á upphafssíðu Víkurfrétta. Það eru þau atkvæði sem gilda síðan á móti atkvæðum dómnefndar. Dómnefndin verður þéttskipuð fólki úr fyrirsætubransanum jafnt sem og skemmtikröftum.
Qmen stúlkurnar hafa verið eftirsóttar á vef Víkurfrétta og hafa nokkur þúsund netverjar skoðað þær daglega. Frekari upplýsinga um keppnina má vænta á allra næstu dögum.