Púttklúbburinn sigraði GS í árlegu púttmóti
Gamlingjarnir í Púttklúbbi Suðurnesja sigruðu í árlegu einvígi þeirra við félaga í Golfklúbbi Suðurnesja. Púttað var í púttsalnum í Röst og enduðu leikar þannig að þeir gömlu unnu öruggan sigur 13-7.Félagar í Púttklúbbi Suðurnesja eru eldri borgarar á Suðurnesjum. Þeir pútta í púttsalnum í Röst alla virka daga og eru snjallir púttarar. Félagar í Golfklúbbi Suðurnesja eru ekki eins góðir púttarar inni og það kom vel fram í gær því gamlingjarnir með Sigga á Nýjalandi í fararbroddi, ný níræðan, unnu öruggan sigur á GS. Lokatölur urðu 13-7 fyrir Púttklúbbinn. Trausti Björnsson, formaður Púttklúbbsins tók við bikar sem gefinn var á sínum tíma í þessa keppni en þeir gömlu hafa sigrað níu sinnum en GS aðeins fjórum sinnum. Hins vegar hefur GS félögum gengið betur á sínum heimavelli, en þá hefur verið púttað úti á púttvellinum á Hólmsvelli í Leiru.