Prófaði sprengiefni í Krýsuvík
Aðilinn sem stal 300 kílóum af sprengiefni í síðustu viku kom af stað sprengingu í hluta efnisins í Krýsuvík. Eftir að upp komst um þjófnaðinn var gæsla aukin við ýmsar opinberar byggingar. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Morgunblaðið.
„Það var meiri gaumur gefinn að slíkum byggingum, það var kannski ekki alveg stöðug gæsla en lögreglumenn voru beðnir um að hafa augun hjá sér. Þetta er hefðbundin varúðarráðstöfun,“ segir Friðrik í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að engar hótanir hafi borist um að nota sprengiefnið og vill ekki gefa upp hvernig lögregla hafði uppi á hinum seka. „Við höldum að hann hafi ætlað að selja sprengiefnið“, segir Friðrik, en veit ekki til þess að maðurinn hafi verið búinn að bjóða það öðrum til kaups.
Mynd að ofan Ellert Grétarsson