Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Prjónaði 50 húfur og 15 ennisbönd fyrir Mæðrastyrksnefnd
Fimmtudagur 2. desember 2010 kl. 09:47

Prjónaði 50 húfur og 15 ennisbönd fyrir Mæðrastyrksnefnd

Eva Kolfinna Þórólfsdóttir í Grindavík hefur síðustu fjórar vikurnar setið niðursokkin við prjónaskap. Afraksturinn er hátt í 50 húfur og 15 ennisbönd. Tilgangurinn með öllum prjónaskapnum er að láta gott af sér leiða því allt fer þetta til Mæðrastyrksnefndar sem síðan útbýtir til sinna skjólstæðinga. Prjónaskapur Evu er hluti af verkefni sem handverkshópur undir heitinu Prjónakella stendur fyrir í þessum tilgangi.


Eva Kolfinna gerir sér það helst til dægrastyttingar að prjóna og mála akrýlmálverk. Hún segir nauðsynlegt að hafa eitthvað skapandi fyrir stafni en hún er öryrki. Prjónaskapurinn síðustu fjórar vikurnar hefur tekið mest allan hennar tíma. „Þess vegna er gott að hafa tvo góða kokka á heimilinu,“ segir hún brosandi og á þá við eiginmanninn og soninn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það getur nærri að talsvert efni fari í svona mikinn prjónaskap en Eva býr svo vel að eiga alltaf nóg til af garni. „Uss, þú ættir að sjá kommóðuna mína. Ég er nefnilega sjúk í garn og er alltaf að sanka að mér,“ segir hún. Meginþorrann af garninu lagði hún því til sjálf en hitt kom frá Pjónakellu sem auk þess lagði til tölur og ýmislegt annað sem fylgir.


Þess má geta að Eva Kolfinna verður með prjónlesi og málverkin sín til sölu á jólamarkaði í Saltfisksetrinu næstu helgi, þann 4. desember.


Þetta framtak Evu Kolfinnu er dæmi um að hægt er að láta gott af sér leiða í kreppunni með ýmsum hætti öðrum en beinum peningastyrkjum. Þannig hafa fréttir borist af kleinubakstri íbúa í Grindavík, bananabrauðbakstri einstæðrar móður í Sandgerði og fleira.