Pósthólf í breyttri mynd - Pósturinn afhentur yfir borðið
Óánægju hefur gætt vegna breytts fyrirkomulags varðandi pósthólfin á pósthúsinu í Keflavík. Hún beinist að því að nú er ekki lengur hægt að fara inn í þar til gert herbergi og sækja póstinn í hólfin eins og fólk gerði áður þegar það gat nálgast póstinn utan hefðbundins afgreiðslutíma. Núna þurfa leigjendur pósthólfa að fá hann afhentan í afgreiðslu á venjulegum afgreiðslutíma. Þeir lesendur sem haft hafa samband við blaðið líta á þetta sem skerta þjónustu sem engu að síður þurfi að greiða sama verði og áður.
„Eðlilega koma kvartanir þegar gerðar eru breytingar á þjónustu. Við tökum auðvitað allar kvartanir til greina og skoðum þær,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningardeildar Íslandspósts í samtali við VF. Hún segir almenna ánægju vera með umrædda breytingu sem henti betur fyrir alla, bæði viðskiptavini og fyrirtækið. Þessi breytta tilhögun sé tilkomin vegna breytinga sem gerðar voru á húsnæði pósthússins.
Aðspurð segir hún ekki hafa komið til tals að endurskoða gjaldskrá vegna þessarar þjónustu enda hafi hún talsverðan kostnað í för með sér.