Pólverjar eigi kost á góðri kennslu í móðurmálinu
Utanríkisráðherra Póllands heimsótti Reykjanesbæ
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Jacek Czaputowicz utanríkisráðherra Póllands hittust í Víkingaheimum á laugardag og ræddu málin. Ráðherran, sem er kunnugur fjölda Pólverja á Suðurnesum, sagði þá una hag sínum vel hér. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Utanríkisráðherra Póllands var í opinberri heimsókn á Íslandi á föstudag og laugardag. Hann kom við í Víkingaheimum á leið heim á laugardag enda mjög áhugasamur um sögu víkinga. Ásamt því að hitta bæjarstjóra Reykjanesbæjar fékk Jacek skoðunarferð um Víkingaheima í fylgd pólskumælandi starfsmanns safnsins.
Í samtali Kjartan Más og Jacek kom fram að það væri ósk stjórnvalda í Póllandi að pólsk börn og ungmenni, hvar sem þau væru niðurkomin í heiminum, ættu kost á góðri kennslu í móðurmálinu pólsku samhliða námi í tungumáli þess lands sem þau væru búsett í. Í okkar tilfelli er það íslenska.