Pitsusendill rændur – lögregla leitar þriggja manna
Laust fyrir kl. tíu í gærkvöld var lögreglu tilkynnt um vopnað rán á Hrannargötu í Reykjanesbæ en þar hafði pitsusendill frá Dominos verið rændur.
Sendillinn hafði verið pantaður að húsnæði við Hrannargötu. Þegar hann kom á staðinn biðu hans þrír dökkklæddir menn með lamhúshettur og réðust á hann. Einn mannanna var vopnaður hnífi og lamdi hann sendilinn tvívegis í höfuðið með hnífsskaftinu. Hinir tveir réðust á sendilinn með hnefahöggum. Hann vankaðist við höggin en komst undan á hlaupum og kallaði til lögreglu.
Sendillinn var lemstraður og blóðugur eftir árásina. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar en saumað var eitt spor í hnakka hans. Árásarmennirnir náðu ekki að taka peninga af sendlinum en tóku pitsur og meðlæti úr bifreiðinni og hlupu á brott. Árásarmennirnir eru ófundnir og lýsir lögreglan eftir hugsanlegum vitnum að árásinni og biður alla sem kynnu að hafa séð til árásarinnar að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum.
Deila á Facebook