Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Píratar sammála bæjarstjóranum
Miðvikudagur 26. apríl 2017 kl. 07:00

Píratar sammála bæjarstjóranum

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, skrifaði um sölu fasteigna á Ásbrú sem varnarliðið færði íslenska ríkinu í sínum tíma á Facebook þann 22. apríl síðastliðinn.
Þar vísar hann í áætlanir þeirra leigufélaga sem keyptu eignirnar og þá hröðu fjölgun íbúa sem ætla má að hafi í för með sér. Þessari fjölgun muni fylgja mikil útgjöld, m.a. vegna áætlaðrar skyndilegrar aukningar leik- og grunnskólabarna sem er eins og Kjartan Már minnist á án nokkurs fordæmis.

Kjartan segir fjármálaráðherra hafa hafnað öllum hugmyndum um að hluti söluhagnaðarins, sem hann segir nema milljörðum, renni til Reykjanesbæjar. Hann ákallar þingmenn Suðurkjördæmisins í þeirri von að þeir þrýsti á að ríkið komi þarna að málum, enda sé fjárhagsstaða sveitarfélagsins tímabundið slæm og möguleikar til frekari skuldsetningar ekki fyrir hendi.

Stjórn Pírata á Suðurnesjum tekur undir með bæjarstjóranum að æskilegt sé að ríkið hlaupi þarna undir bagga með einhverjum hætti. Reykjanesbær er illa staddur fjárhagslega, enda hefur sveitarfélagið ekki verið vel rekið síðustu áratugi. Það má því búast við erfiðleikum, a.m.k. til skamms tíma, tengdum þessari fjölgun sem betur stætt sveitarfélag myndi ekki endilega þurfa að glíma við. Til lengri tíma munu þó væntanlega tekjur fylgja fjölguninni.

Stjórn Pírata á Suðurnesjum vill þó fara þess á leit við bæjarstjórann, fái hann bón sína uppfyllta, að bæjarstjórnin eyrnamerki ríkisstyrkinn uppbyggingu á Ásbrú og standi við það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024