Píratar sækja í Suðrið
Píratar voru stofnaðir formlega í Suðurkjördæmi um síðustu helgi. Laugardaginn 3. oktober, 2015 var haldinn stofnfundur Pírata í Suðurkjördæmi í félagsheimilinu Þingborg. Umræður og kosningar voru um lög félagsins og var niðurstaðan sú að hafa varnarþing þess á Selfossi.
Kosið var í stjórn og nýju stjórnina skipa:
Elín Finnbogadóttir kapteinn
Sigurður Á. Hreggviðsson, Valgeir Valsson, Þórólfur Júlían Dagsson og Jack Hrafnkell Daníelsson.
Varamenn eru Kristinn Ágúst Eggertsson og Hrafnkell Brimar Hallmundsson.
Ákveðið verður á fyrsta fundi nýrrar stjórnar hverjir taka að sér starf ritara og gjaldkera.
Umræður um næstu skref voru líflegar og skemmtilegar og má segja með sanni að mikill hugur sé í fólki. Píratar í Suðurkjördæmi er landshlutafélag sem nær frá Suðurnesjum til Hafnar í Hornafirði.
Píratar eru stjórnmálaafl sem berst fyrir raunverulegu gegnsæi og ábyrgð í stjórnkerfinu, auknu aðgengi að upplýsingum, beinu lýðræði, upplýsingafrelsi og endurskoðun höfundarréttar. Þeir leggja áherslu á mikilvægi lýðræðislegra, opinna vinnubragða og gagnrýninnar hugsunar við ákvarðanatöku.