Pink ósátt við ljósmyndara Víkurfrétta
Söngkonan Pink var í Bláa Lóninu í dag ásamt fylgdarliði sínum og lífvörðum. Ljósmyndari Víkurfrétta brá sér á staðinn í þeim tilgangi að taka myndir af telpunni en það reyndist mjög erfitt. Ljósmyndarinn borgaði sig ofan í Bláa Lónið og tók myndavélina með sér. Söngkonan var í nuddi mest allan tímann í Bláa Lóninu og þurfti ljósmyndarinn að vera mjög þolinmóður á meðan hún lét dekra við sig.
Það leið ekki langur tími þar til að íslenskur lífvörður var mættur ofan í Bláa Lónið og stillti sér upp fyrir framan ljósmyndara Víkurfrétta. Tjáði hann honum að hann myndi gera allt til þess að koma í veg fyrir myndatökur.
Þegar söngkonan var búin í nuddi sá hún ljósmyndarann og sýndi honum sína fallegu löngutöng með tilheyrandi grettum. Ljósmyndarinn sá söngkonuna nálgast hann ásamt vinkonu sinni sem hún faldi sig á bakvið. Hann átti síðan fótum fjör að launa þegar söngkonan jós vatni og svívirðingum í þeim tilgangi að eyðileggja myndavélina og særa stolt ljósmyndarans.
Lífverðir skárust inn í leikinn og báðu öryggisgæslu Bláa Lónsins að fjarlægja ljósmyndarann en þess var ekki þörf því hann yfirgaf það sjálfviljugur.
Hann beið síðan eftir söngkonunni og náði af henni mynd þar sem hún hlustaði á íslenska geisladiska í gjafavöruversluninni í Bláa Lóninu. Hún síðan yfirgaf lónið starfsmanna megin og þeystist síðan í burtu.
Þetta er í fyrsta skiptið sem til vandræða kemur á milli ljósmyndara Víkurfrétta og heimsfrægra persóna á borð við Pink. Flestir þeirra stoppa í Bláa Lóninu og eru sáttir við myndatökur íslenskra fjölmiðla en greinilega eru þeir ekki allir þannig.
Myndirnar/Efri: Pink hlustar á íslenska geisladiska í gjafavöruversluninni í Bláa Lóninu /Neðri: Pink ásamt lífverði sínum eftir að hafa skvett vatni á ljósmyndarann
VF-myndirnar/Atli Már Gylfason