Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Pétur Gautur og friðurinn í Kaffitári
Miðvikudagur 26. janúar 2005 kl. 11:06

Pétur Gautur og friðurinn í Kaffitári

Sýning Péturs Gauts Friðurinn var opnuð um síðustu helgi í Kaffitári. Pétur Gautur hefur stundað listsköpun á Íslandi síðan 1993, en það ár hélt hann sína fyrstu einkasýningu í Portinu í Hafnarfirði. Myndirnar á sýningunni í Kaffitári eru eðlilegt framhald á listsýn Péturs sem er einföld og hrein og dálítið einsog Mondrian að mála uppstillingar Cezanne.

Hinn norski nafni Péturs, leikpersóna Ibsens, hlýtur einnig að hafa haft einhver áhrif á hinn íslenska Pétur, að því leyti helst að hann tengir sig við hið leikkynjaða. Og hann er, einsog áður sagði, menntaður í leikmyndagerð (kannski upphafleg áhrif nafnsins), og því eru sumar myndirnar einsog rammar utan um uppstillingar á leiksviði. 

Á sýningunni á listveggjum Kaffitárs er t.d. ein aflöng mynd af ávöxtum á borði með svörtum bakgrunni. Myndin minnir helst á síðustu kvöldmáltíðina, að því undanskildu að þar vantar frelsarann og lærisveinana 12 - sem og dálítið af víni og krásum. Myndin er hrein uppstilling; búið er að kveikja á kastara, og það er einsog frammistöðumenn bíði á sviðsvængjunum eftir að ganga inn á sviðið með vínkrúsir og diska, steikarföt og leirfanta. Það er því brakandi friður yfir myndinni og maður getur næstum því heyrt fólk hósta út í sal. Lærisveinarnir eru enn niður í förðun, en eiga innan tíðar eftir að snjóa upp stigana til að vera í viðbragðsstöðu og bíða markorða sinna. Og ef hægt væri að kalla þá fram, því þeir eru vissulega ímyndaðir,  myndu þeir ganga einn af öðrum út á senuna, langþjáðir af lampaskjálfta, segja hægt fram einræður sínar og setjast alvarlegir við borðið og bíða frelsarans. En auðvitað eru allar persónur rétt ókomnar á þessari ágætu mynd, og friður myndarinnar er því algjör. Ekki einu sinni frelsarinn er hér til staðar til að trufla myndbygginguna - ef það er hægt að taka svo undarlega til orða

Sýningin stendur til 22. mars.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024