PBS rannsókn kemur til með að styrkja innra starf skólanna
Njarðvíkurskóli,Myllubakkaskóli og Holtaskóli hafa frá 2007 verið að vinna að því að innleiða PBS agastjórnunarkerfið í skólana. Niðurstöður rannsóknar á innleiðingu PBS (Positive Behavioral Support) hegðunarkerfisins í þremur skólum á Suðurnesjum voru á dögunum kynntar í Njarðvíkurskóla sem tók þátt í rannsókninni ásamt Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta árangur PBS kerfisins á skólastarfið.. Niðurstöður sýna til dæmis að eftir innleiðingu stefnunnar í skólana hafa jákvæð viðbrögð kennara á yngsta stigi gagnvart nemendum aukist úr um það bil 16% upp í um það bil 75%. Á sama tíma hefur óæskileg hegðun nemenda á skólatíma farið úr tæpum 60% niður í rúm 15%.
Upplýsingar um breytingar á hegðun nemenda og kennara var aflað með svokölluðu beinu áhorfi sem fólst í því að háskólanemar fylgdust með samskiptum nemenda og kennara í skólunum og skráðu þau áður en innleiðing hófst og fylgdust svo með hvernig innleiðingin gekk.
Hvað er PBS?
PBS hegðunarkerfið er hannað til þess að kenna og styrkja æskilega hegðun samhliða því að fyrirbyggja og draga úr erfiðri hegðun. Það er útskýrt nákvæmlega til hvers er ætlast af börnunum, æskileg hegðun kennd og við hana er stutt með umbunum eins og pappírsverðlaunapeningum. Nemendum er líka sagt frá hvaða afleiðingar óæskileg hegðun hefur í för með sér. Lögð er áhersla á að slík leiðrétting sé jákvæð og að hún hvetji barnið til temja sér hina jákvæðu félagslegu hegðun og leiði því fyrir sjónir að því fylgir vellíðan bæði fyrir það og aðra. Aðferðum PBS er beitt í öllum aðstæðum í skólanum: Á skólalóðinni, í ferðalögum, umgengni á göngum, íþróttum og kennslustundum. Nánar er fjallað um málið í Víkurfréttum í dag.