PBS dagurinn í dag
Á Íslandi starfa nokkrir grunn- og leikskólar eftir agastefnunni Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun eða PBS (Positive Behavior Support). PBS hvetur með kerfisbundnum hætti til jákvæðrar hegðunar, eykur félagsfærni, bætir samskipti og dregur jafnframt úr hegðunarvanda barna og unglinga. Í þessum skólum starfa teymi sem vinna að því að innleiða og viðhalda agakerfinu. Síðustu fjögur árin hafa þau staðið fyrir PBS degi þar sem starfsfólk allra skólanna hittist, hlýðir á ýmis erindi sem tengjast stefnunni og deilir með sér hugmyndum. Skólarnir sem vinna saman að þessum degi eru Breiðholtsskóli, Ingunnarskóli, Hamraskóli, Laugarnesskóli, Seljaskóli og Sæmundarskóli í Reykjavík og Háaleitisskóli, Holtaskóli, Myllubakkaskóli og Njarðvíkurskóli í Reykjanesbæ.
PBS dagurinn í ár er á baráttudegi gegn einelti og því ákváðu teymisstjórar skólanna að erindi dagsins tengdust samskiptum og vinnu gegn einelti. Dagskrá verður í hátíðarsal Breiðholtsskóla frá kl. 14:00-16:00. Ingrid Kuhlman frá Þekkingarmiðlun mun fjalla um vinnustaðamenningu og samskipti á vinnustöðum og Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum, um einelti og samskipti nemenda.