Páskablað fær frábærar viðtökur - „Framtíðin er núna“
Páskablað okkar á Víkurfréttum er að fá frábærar viðtökur hjá lesendum vf.is. Blaðið er líka unnið við sérstakar aðstæður og nær allt efnið er unnið í gegnum netið.
Viðtölin í páskablaðinu eru nær öll tekin í gegnum netið eða með símaviðtölum. Þá er annað efni sem var unnið áður en heimsfaraldur COVID-19 kom upp. Þá var heimilisfólk á heimilum viðmælenda virkjað í að taka myndir fyrir viðtölin.
Í þessu páskablaði Víkurfrétta eru á sjöunda tug viðtala og pistla. Blaðamenn settu sig í samband við fólk víðsvegar og sendu því spurningar eða báðu viðkomandi að skrifa dagbækur og deila með lesendum. Árangurinn má sjá í blaðinu sem hægt er að lesa hér að neðan.
Í blaðinu eru einnig viðtöl sem hægt er að spila og hlusta á. Þannig má t.d. hlusta á ítarlegt viðtal við Ólaf Þór Ólafsson, sem er nýráðinn sveitarstjóri á Tálknafirði. Hann er Sandgerðingur og hefur sagt skilið við bæjarpólitíkina í Suðurnesjabæ. Einnig er viðtal við Ingvar Þór Jóhannesson sem er staddur um borð í verksmiðjutogara á syðsta odda Argentínu. Þessi viðtöl er hægt að spila með því að smella á þau á síðum blaðsins í rafrænni útgáfu Víkurfrétta. Einnig eru önnur viðtöl og myndskeið.
Eins og einn ágætur lesandi vf.is sagði um páskablað Víkurfrétta á fésbókinni: „Framtíðin er núna“.