Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Parketframleiðsla í Grindavík hafin
Laugardagur 5. febrúar 2005 kl. 12:37

Parketframleiðsla í Grindavík hafin

Nýtt fyrirtæki, Geo plank er að hefja starfsemi í Grindavík og eru það góðar fréttir fyrir atvinnulífið á svæðinu.  Geo plank flytur inn harðvið af bestu gæðum frá Bandaríkjunum og þurrkar viðinn og vinnur í yfirborðsefni fyrir parket og flytur það svo áfram á Evrópu og Bandaríkjamarkað.  Fyrirtækið er í eigu einstaklinga og fjárfesta en aðalfrumkvöðlar að stofnun fyrirtækisins eru Stefán Jónsson iðnrekstrarfræðingur, Þórður H. Hilmarsson rekstrarhagfræðingur og Ingi G. Ingason viðskiptafræðingur.  Það tók 3-4 ár að þróa hugmyndina og kynna fyrir fjárfestum.  Þegar búið var að tryggja aðgengi að hráefni og sölu á framleiðslunni var grundvöllurinn lagður að rekstri fyrirtækisins. Þá ber einnig að geta þess að bæjaryfirvöld í Grindavík  ásamt Hitaveitu Suðurnesja hafa með beinum og óbeinum hætti  aðstoðað félagið við upphaf starfseminnar. 

Til að þurrka viðinn svo hægt sé að nota hann til parketframleðslu þarf mikla orku og er því staðsetningin hér lykilatriði varðandi samkepnishæfni Geo plank.  Skapar það félaginu talsverða sérstöðu þar sem erlendir framleiðendur þurfa að hita upp sitt vatn með afsagi, gasi, olíu og kolum auk þess þess að þurfa að fjárfesta í suðutækjum til að búa til hitaorkuna.  Þá skipta aðrir þættir einnig máli s.s. niðurfelling tolla á hráefninu vegna viðkomu hér á landi og sú staðreynd að launakostnaður er svipaður hér og í helstu viðskiptalöndum félagsins.  Einnig er sú staðreind að vinnslan er 100 % umhverfisvæn miklvæg í markaðssetningu vöru í dag. 

Þegar blaðamaður VF kom við hjá Geo plank á mánudaginn var Stefán Jónsson framleiðslustjóri að raða viði í þurrkofninn og var bajrtsýnn á komandi tíma. "Það hefur farið langur tími í að koma framleiðslunni af stað en nú er allt farið að ganga vel.  Við þurfum að fjölga starfsfólki fljótlega, verðum líklega 6-8 manns hérna.  Við munum einbeita okkur að einni gerð af parketi, þ.e.a.s. plankaparketi en þá er yfirborðsefnið 7-15 cm. breitt.  Við munum einnig framleiða gegnheilt parket fyrir innanlandsmarkað og getum við þá svo að segja klæðskerasaumað parketið eftir óskum viðskiptavinarins".  Stefán sýndi blaðamanni framleiðsluferlið og þurrkofninn sem er mjög fullkominn og tölvustýrður og má segja að ofninn sé hjarta Geo plank.  Þeir félagar eru mjög ánægðir með staðsetninguna en húsið stendur við höfnina og hafa þeir gott útsýni þaðan sem gerir vinnuna skemmtilegri. 

Áformað er að fyrsti gámurinn fari til Evrópu um miðjan febrúar en heildarframleiðsla félagsins er áætluð um 200 þús m2 eða sem nemur um 2-3 gámum í mánuði allt árið um kring.

Texti og myndir: Þorsteinn G. Kristjánsson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024