Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Páll Valur: Reynum að vera kurteis og málefnaleg þrátt fyrir hörku
Miðvikudagur 19. júní 2013 kl. 07:24

Páll Valur: Reynum að vera kurteis og málefnaleg þrátt fyrir hörku

Páll Valur frá Bjartri framtíð segir mikið um að vera á Alþingi

Páll Valur Björnsson viðurkennir að hafa upplifað mikla spennu þegar hann mætti fyrst til vinnu á Alþingi fyrir skömmu. Páll Valur varð í síðustu kosningum einn sex þingmanna Bjartrar framtíðar. Páll sem er fyrrum bæjarfulltrúi í Grindavík en hann segir það hafa verið skrítna tilfinningu að mæta til vinnu í hið sögufræga hús við Austurvöll. Páll segir ekki mikið hafa komið sér á óvart á þingi en hann segist þó vera nokkuð hissa á umstanginu sem fylgi þinginu og öllum þeim starfsmönnum sem þar eru innanhús.

„Þarna er allt í föstum skorðum og hefðir og venjur í hávegum hafðar og það er ljóst að það er að mörgu að hyggja þegar maður hefur feril sinn sem þingmaður. Fyrsta vikan er liðin og þetta er nú svona eins og ég bjóst við, ég hef fylgst töluvert með stjórnmálunum í landinu undafarin ár og svo sem ekkert sem kom manni mikið á óvart. Reyndar kom mér á óvart sá mikli fjöldi starfsmanna sem starfar á vegum þingsins við hin ýmsu störf og þar fer fram mikil vinna sem ég er viss um að margir hafa ekki hugmynd um að fari fram. Það fylgir því mikið starf að halda utan um alla þætti starfseminnar og þar er fagmennskan í fyrirrúmi og frábært starfsfólk sem innir þessa vinnu af hendi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Páll Valur segir byrjunina lofa einstaklega góðu en síðar eigi eftir að koma í ljós hvers lags vinnustaður Alþingi er. „Bæði starfsmenn sem og eldri þingmenn hafa tekið okkur nýjum þingmönnum opnum örmum og allir eru boðnir og búnir að aðstoða mann. Það fylgir því mikill lærdómur að hefja störf sem alþingismaður, enginn verður óbarinn biskup í þessu starfi ekki frekar en öðrum,“ segir Páll.

Stjórnarandstaðan gefur ekkert eftir

Sumarþingið kemur til með að standa stutt yfir en Páll  segir það ljóst að stjórnarandstaðan muni ekkert gefa eftir í að veita hinum nýju valdhöfum aðhald. „Töluverð harka hefur verið í umræðunum í byrjun eins og við var að búast en við í mínum flokki höfum við verið málefnaleg og kurteis. Það er sú stefna sem við lögðum til grundvallar starfi okkar og við þá stefnu munum við standa hvað sem á dynur. Við áskiljum okkur þann rétt að veita stjórnvöldum mikið aðhald en eins munum við styðja þau í því að koma stærstu stefnumálum sínum í gegn svo framarlega að þau komi til móts við þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu.“

Forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar hefur valdið Páli og kollegum hans miklum vonbrigðum og þau mál sem hún hefur lagt fram nú á þessu sumarþingi að hans mati ekki þau mál sem kjósendur bjuggust við. „En hvað sem öðru líður þá bind ég miklar vonir við að okkur sem komum til með að starfa við þessa æðstu stofnun landsins á næstu misserum auðnist að starfa saman að heilindum og hafa almannaheill að leiðarljósi. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá snúast stjórnmál um það og ekkert annað,“ segir Páll að lokum.