Páll sækist eftir 2. sæti hjá Framsókn í Suðurkjördæmi
Páll Jóhann Pálsson hefur ákveðið að sækjast eftir 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Páll er útvegsbóndi í Grindavík og situr í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Framsóknarflokkinn. Páll er gagnfræðingur frá Skógarskóla og útskrifaðist frá Vélskóla Íslands 1978 og Stýrimannaskóla Íslands 1983 og hefur síðan unnið við eigin útgerð, ýmist á sjó eða í landi auk landbúnaðarstarfa. Eiginkona Páls er Guðmunda Kristjánsdóttir, þau eiga 5 börn og ellefu barnabörn. Þau búa í Stafholti, Þórkötlustaðarhverfi í Grindavík.
„Mín reynsla af stjórnmálum hófst þegar ég gekk í Framsóknarflokkinn árið 2010 og gaf kost á mér í prófkjör Framsóknarflokksins í Grindavík og hef setið í bæjarstjórn síðan. Fram að því hafði ég engin afskipti haft af stjórnmálum önnur en að ræða þau í borðsalnum eins og sagt er til sjós. Hins vegar hafði ég lengi gert mér grein fyrir því hvar stjórnmálahjartað slær.
Ástæðan fyrir því að ég stefni á Alþingi er að mér finnst vanta fleiri málsvara fyrir hinar dreifðu byggðir landsins og þá sérstaklega fyrir sjávarbyggðir sem nánast eru lagðar í einelti af stjórnvöldum í dag. Þar sem ég er alinn upp í sjávarplássi og unnið nánast öll störf í fiskvinnslu og til sjós, auk langrar reynslu af rekstri eigin fyrirtækis, vil ég leggja mitt af mörkum til að verja samfélög landsbyggðarinnar.
Þar sem Suðurkjördæmið samanstendur af öflugum sjávarplássum og stórum landbúnaðarhéruðum, mun reynsla mín af landbúnaði einnig nýtast en við hjónin bjuggum á Halldórsstöðum í Skagafirði með hross og fjárbúskap í 8 ár ásamt minni sjómennsku. Ég mun beita mér af öllum kröftum fyrir hagsmunum landsbyggðar til sjávar og sveita.“
Páll Jóhann Pálsson.