Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Páll Ketilsson hlaut Lundann 2014
Páll Ketilsson fyrir miðju með Lundann 2014. Til hægr er Jón Ragnar Reynisson, forseti Kiwanisklúbbsins Keilis og til vinstsri er Gunnlaugur Gunnlaugsson, verðandi umdæmisstjóri Kiwanis á Íslandi.
Laugardagur 27. september 2014 kl. 20:35

Páll Ketilsson hlaut Lundann 2014

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta hlaut Lundann 2014 en það er viðurkenning sem Kiwanisklúbburinn Keilir í Reykjanesbæ veitir á hverju ári og hefur gert frá árinu 2002. Verðlaunagripurinn er uppstoppaður lundi sem er afhentur þeim einstaklingi sem þykir hafa látið gott að sér leiða eða unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, bæjarbúa eða bæjarfélagsins. Kiwanisfélagar efna á hverju hausti til Lundafagnaðar í KK-salnum í Reykjanesbæ þegar viðurkenningin er veitt og var nú sl. föstudagskvöld.

Ragnar Örn Pétursson, formaður fræðslunefndar Keilis sagði að nefndinni hefðu borist fjölmargar tillögur um einstaklinga sem voru vel að því komnir að fá þessi verðlaun. 

Páll er eigandi Víkurfrétta en fyrirtækið fagnaði þrjátíu ára afmæli í fyrra. Hjá VF starfa um tíu manns og það gefur út samnefnt vikublað á Suðurnesjum, heldur úti fréttavefnum vf.is og golfvefnum kylfingur.is sem og vikulegum sjónvarpsþætti. Þá hefur Páll ritstýrt tímariti Golfsambands Íslands, Golf á Íslandi, í rúman áratug.

Páll sagði í stuttri ræðu eftir afhendinguna að lykill að velgengi fyrirtækisins lægi í mannauði þess en sagði líka að góð tenging við íbúa og samstarf við lesendur og áhorfendur hefði mikið að segja. Hann þakkaði Kiwanismönnum fyrir viðurkenninguna og sagði þá vinna ómetanlegt starf í félags- og líknarmálum en klúbburinn hefur m.a.  í langan tíma selt jólatré og nýtt afraksturinn til líknarmála á hverju ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Saga Lundans

Lundinn var fyrst afhentur árið 2002 og þá hlutu hann þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson, starfsmenn áhaldahúss Reykjanesbæjar, en þeir höfðu unnið í áratugi við að fegra bæinn.

Árið 2003 hlaut Lundann Ólafur Oddur Jónsson heitinn, sóknarprestur í Keflavíkursókn sem í mörg ár hélt  uppi umræðum og fræðslu gegn sjálfsvígum.

Tómas Knútsson hlaut Lundann árið 2004 en Tómas setti á fót Bláa herinn sem hefur unnið ötullega við að hreinsa strandlengjuna og þá hefur hann stjórnað Sportköfunarskóla Íslands.

Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík og bæjarfulltrúi hlaut Lundann  fyrir árið 2005. Steinþór var upphafsmaður að lýsingu Bergsins og síðan hátíðinni Ljósanótt sem fylgdi í kjölfarið.

Árið 2006 hlaut Sigfús B. Ingvason prestur í Keflavík Lundann.

Árið 2007 hlaut Erlingur Jónsson Lundann. Erlingur hefur látið til sín taka í forvarnarstarfi í Reykjanesbæ og hefur ritað ófáar greinar um skaðsemi eiturlyfja.

Árið 2008 hlaut Lundann Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður í Björginni – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja.

Árið 2009 hlaut Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar Lundann.

Lundann 2010 hlutu Halldór Halldórsson og Haraldur Haraldsson úr rústabjörgunarsveit Landsbjargar og félagar í Björgunarsveit Suðurnesja.

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis hlaut Lundann árið 2011. Keilir miðstöð vísinda,fræða og atvinnulífs er eitt af óskabörnum Suðurnesjamanna sem varð til við brotthvarf varnarliðsins árið 2006.

Árið 2012 hlaut Þórarinn Ingi Ingason flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni Lundann.

Árið 2013 hlaut Arnór Vilbergsson, organisti og kórstjóri við Keflavíkurkirkju Lundann. Arnór hefur verið driffjöðrin í mjög öflugu kóra-og tónlistarstarfi.