Óvíst um framhald breikkunar Reykjanesbrautar
Óvíst er hvenær vinna við breikkun annars áfanga Reykjanesbrautar hefst, en um 12 km. kafla er að ræða. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við breikkun 2. áfanga sé um 800 milljónir króna eða um 60% af upphaflegri kostnaðaráætlun. Er þá gert ráð fyrir gatnamótum við Vogaafleggjara og Grindavíkurafleggjara.
Að sögn Steinþórs Jónssonar forsvarsmanns áhugahóps um örugga Reykjansbraut hafa stjórnvöld engin svör gefið um hvenær framkvæmdir hefjast við breikkun seinni áfangans. „Á borgarafundi í Stapanum þann 11. janúar 2001 gáfu þingmenn út loforð um að tvöföldun Reykjanesbrautar yrði lokið 2004 til 2005. Það liggja hinsvegar engar ákvarðanir eða fjármunir frá hendi stjórnvalda um seinni áfangann,“ segir Steinþór.
Áhugahópurinn er mjög uggandi um framhald verksins þar sem ekki er ljóst hvernig framhaldið verði. Steinþór segir það mjög mikilvægt að haldið verði áfram við breikkun brautarinnar og að ákvarðanir verði teknar fljótlega. „Um leið og áhugahópurinn finnur fyrir gríðarlega miklum þrýstingi álmenning virðist lítil pólitískur áhugi þingmanna til að vinna að framhaldi verksins og er engu líkara en sumir þeirra haldi að verkið klárist að sjálfu sér.“
Myndin: Unnið að malbikun á Reykjanesbrautinni í dag. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.