Óvíst hvað verður um Seltjörn
Reykjanesbær tók á síðasta ári við rekstri Seltjarnar við Sólbrekkuskóg. Veiðileyfi hafa verið seld í vatnið í sumar en nokkur óvissa ríkir um hvað verður þar í framtíðinni. Bæjaryfirvöld vita ekki nákvæmlega hvert ástandið er á fiskistofnum í vatninu en Íþrótta-, og tómstundaráð Reykjanesbæjar hyggst fá Tómas Knútsson, kafara til þess að kanna stofninn.
Um árabil hafa Suðurnesjmenn getað veitt í Seltjörn og svo hefur verið í sumar en veiðin hefur verið af skornum skammti. Hvort heldur er um að kenna að Seltjörn sé ekki sjálfbær eða hvort veiðmönnum á Suðurnesjum hafi farið aftur í veiði sinni.
Í dag lítur allt út fyrir að Reykjanesbær muni leita eftir aðilum til þess að taka að sér rekstur vatnsins. Áhugi félaga í Stangveiðfélagi Keflavíkur var kannaður, en svo virðist sem áhugi félagsins sé ekki mikill á að sjá um vatnið.
Í Seltjörn fást aðallega silungur og bleikja og má oft sjá þar veiðmenn rifja upp fluguköstin eftir veturinn eða unga krakka með spún eða myndarlega beitu í öngli neðan við flotholt.
Hvað sem verður þá er staðan á Seltjörn í dag ekki nægilega góð þar sem minna hefur borið á veiðinni og veiðimönnum sjálfum. Seltjörn er útivistarparadís í Reykjanesbæ í grennd við Sólbrekkuskóg. Á Ljósanótt verður vígður þar stærsti módelflugvöllur Íslands, svo aðstaðan við Seltjörn tekur skemmtilegum framförum á meðan vatnið bíður betri tíma.