Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 10. júní 2003 kl. 19:44

Óvissutími framundan á Suðurnesjum

Tími óvissu er framundan hjá hátt í fimm þúsund Íslendingum sem hafa framfæri af störfum tengdum varnarliðinu. Suðurnesjamenn virðast þó trúa því að íslenskum ráðamönnum takist í samningum við Bandaríkjastjórn að koma í veg fyrir áfall.
Hátt í tvö þúsund íslenskar fjölskyldur hafa atvinnutekjur beint af varnarliðsstarfseminni. Hjá hernum vinna um 900 Íslendingar og um 800 starfa hjá verktökum og stofnunum sem annast þjónustu við herinn.Rekstur varnaliðsins kostar um 27 milljarða króna á ári, sem eru miklir fjármunir, jafnvel fyrir Bandaríkjamenn. Þeir leka inn í íslenskt samfélag og valda því að landsframleiðsla er um 1,5% hærri en ella.

Það er því ekki nema von að bæjarstjóri Reykjanesbæjar hafi áhyggir af afleiðingum þess ef flugherinn færi: ,,Hér eru 800 störf sem gætu verið í húfi, það samsvarar 8000 störfum í Reykjavík. Þannig að ég held að menn hljóti að sjá hvað er í húfi," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Fjöldi fólks í Reykjanesbæ hefur auk þess tekjur af margskyns þjónustu við varnarliðsmenn og fjölskyldur þeirra, en Bandaríkjamennirnir eru duglegir að sækja veitingahúsin. Opinber þjónusta nýtur einnig góðs af nærveru hersins en fjórðungur af tekjum Hitaveitu Suðurnesja kemur frá varnarliðinu. Sorpeyðingastöð Suðurnesja er annað dæmi en þriðjungur þess sem þar er fargað kemur frá hernum.

Gríðarmikil flutningastarfsemi tengist varnarsvæðinu. Þjónusta þarf samfélag sem er á við stórt íslenskt bæjarfélag, en svo eru íbúarnir stöðugt að flytja.

Ratsjárstofnun er einnig í óvissu, enda er hún hluti af starfsemi flughersins. Hjá henni vinna um 80 manns í öllum landshornum við að reka ratjár við Bolungarvík, Langanesi, Hornafirði og á Miðnesheiði. Því starfi tengjast einnig um 30 manns hjá Kögun í Reykjavík.

Suðurnesjamenn virðast hins vegar trúa því að íslenskum ráðamönnum takist að sannfæra Bush og félaga.

,,Ég tel að þetta verði erfiðar samningaviðræður, augljóslega, og að menn þurfi að beita sér vel til að halda hér uppi öflugum loftvörnum, og það er það sem skiptir mestu máli. Hvað kemur útúr þeim samningum, það ætla ég ekki að segja til um," segir Árni Sigfússon í samtali við Stöð 2 í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024