Óvissa um kísilverksmiðju í Helguvík
Óvíst er um byggingu 40 þúsund tonna kísilverksmiðju í Helguvík. Verksmiðjunni var ætlað að tryggja fjölmörg störf á Suðurnesjum. Upphaflega var rætt um að framkvæmd verkefnisins og rekstur verksmiðjunnar mundi blása lífi í atvinnumál sveitarfélagsins. Við undirbúning og framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar áttu að verða til um 150 störf, en þegar reksturinn væri hafinn myndi skapast um 25-30 störf á fjölbreyttum vettvangi. Í fullri stærð myndi verksmiðjan skapa um 50 heilsársstörf. Bæði fyrir starfsfólk með háskólamenntun, iðnaðarmenntun, verslunarmenntun og einnig störf þar sem fagmenntunar er ekki krafist. Raforkusamningur við Landsvirkjun er nú útrunninn vegna vanefnda og verður ekki framlengdur.
Fjárfestingasamningar milli stjórnvalda, Reykjanesbæjar og Íslenska kísilfélagsins vegna 40 þúsund tonna kísilverksmiðju í Helguvík, voru undirritaðir í febrúar á síðasta ári og áttu framkvæmdir að hefjast síðasta sumar, á 110 þúsund fermetra lóð sem Reykjanesbær lagði til. Íslenska kísilfélagið, sem er í minnihluta eigu bandaríska félagsins Globe Speciality Metals, gerði raforkusamning við Landsvirkjun eftir karp um raforkuverð, en átti eftir að aflétta fyrirvörum í samningnum svo hann tæki gildi.
Fyrirtækið hefur fengið ítrekaða fresti til þess, sá síðasti rann út á fimmtudaginn, án þess að fyrirvörum væri aflétt og hefur Landsvirkjun tilkynnt félaginu að þar með sé samningurinn fallinn úr gildi.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði í fréttum Rúv í gær að umhverfismat og starfsleyfi liggi fyrir. Tvö til þrjú erlend fyrirtæki hafi áhuga á að koma að byggingu verksmiðjunnar, og hann vonar því að ekki verði verulegur dráttur á verkefninu. Ástæða samningsvanefndanna virðist þó vera sú að erlenda félagið hafi ákveðið að kaupa þrotabú kísilverksmiðju í Kanada, og ætli að beina sjónum sínum frekar þangað.
VF Myndir: Frá undirritun í febrúar í fyrra og lóðin það sem verksmiðjan á að rísa.