Óvissa núna en miklir framtíðarmöguleikar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að þrátt fyrir margvíslega óvissu núna vegna kórónuveirunnar og atvinnuleysis á Suðurnesjum þá séu mikil tækifæri á svæðinu til framtíðar litið, m.a. með tilliti til flugstöðvarinnar og ferðaþjónustunnar. Hún fjallaði um málefni Suðurnesja og svaraði spurningum á opnum fundi Vinstri grænna á Hótel Keflavík síðasta föstudag.
„Við vitum að kórónuveiran hefur áhrif á ferðaþjónustuna og getur því haft veruleg áhrif á Suðurnesjum. Við vitum líka að staðan gæti verið betri því hér hefur þurft að takast á við fall WOW flugfélagins og aukið atvinnuleysi í kjölfar þess,“ sagði Katrín.
Hún sagði að ríkisstjórnin hafi brugðist við því með viðbótarframlögum til ýmissa grunnstofnana á svæðinu, m.a. til heilbrigðismála og menntastofnana.
„Stóra málið að undanförnu hefur verið framlög til opinberra stofnana á Suðurnesjum. Það hefur verið til skoðunar og verið bætt. Það er mikilvægt að grunnstofnanir séu í takti við það sem er annars staðar. Við vitum af þessu og erum byrjuð að taka á málinu en þetta vill oft taka of langan tíma í kerfinu,“ sagði hún á fundinum þar sem hún svaraði einnig spurningum um Suðurnesjalínu 2 og fleira.
Katrín sagði að auka þyrfti framlög til rannsóknar og þróunar en þau hafa verið mest á höfuðborgarsvæðinu. Tækifæri væru nú til að efla þetta framlag úti á landi og þannig efla nýsköpun og þróun.
Hún sagði að ríkisstjórnin hafi verið að bæta í varðandi samgöngumálin enda þörfin mikil og brýn.
„Við ætlum að halda því áfram. Reykjanesbrautin er eitt af stóru verkefnunum þar. Þegar við horfum á fjárfestingar í samgöngum þá er ljóst að þær hafa verið of litlar og álagið er miklu meira en fyrir tíu árum. En við höfum gefið í og ætlum að gera áfram.“
Katrín sagði skilja áhyggjur Suðurnesjamanna af seinagangi í uppsetningu Suðurnesjalínu 2 en verið væri að vinna að því að flýta ferlinu sem þarf að fara í gegnum varðandi línulagnir. „Ég skil þessar áhyggjur og veit líka ástæður en það hvílir á okkur núna hvernig við getum einfaldað þetta ferli þannig að það nýtist í öllum svona tilfellum. Ekki bara Suðurnesjalínu 2. Ég held að málflutningur íbúa og sveitarfélaga hafi skilað sér og við sjáum nú þegar breytingar inni í pólitíkinni og á Alþingi sem eru í rétta átt.“
Hún segir að þegar hún hafi verið yngri hafi hún oft farið með foreldrum sínum bíltúr um Suðurnesin. Hún segir möguleikana mikla í ferðaþjónustunni og nefnir til dæmis jarðvanginn, Geopark. „Ég elskaði þetta svæði, hraunið og náttúran eru mögnuð. Þetta er eitt af mínum uppáhaldssvæðum,“ sagði forsætisráðherra.
Suðurnesjamaðurinn Jónatan Stefánsson er mikill aðdáandi Katrínar Jakobsdóttur. VF-mynd/hilmarbragi.