Óvissa með eldgosið
Dregið hefur úr virkni eldgossins við Sundhnúksgíga síðustu sólarhringa. Virkni í gígunum er minni og mögulega slökknað í minnstu gígunum. Þá hefur gosórói minnkað mjög hægt og rólega undanfarna daga. Megin hraunstraumurinn rennur frá gígunum fyrst í suður og beygir síðan til vesturs. Um helgina hélt hraun áfram að flæða í Melhólsnámuna og hefur nú fyllt hana. Hraun heldur áfram að þykkna nær gígunum. GPS mælingar síðustu daga benda til þess að landris sé í gangi í Svartsengi, en mun hægara en áður. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi.
Leiðigarðar sanna gildi sitt
Varnar- og leiðigarðar sem reistir voru norðan og austan Grindavíkurbæjar hafa sannað gildi sitt í eldsumbrotunum. Garðarnir hafa tekið á móti miklu magni af hrauni og leitt það í átt til sjávar. Hraunjaðarinn á þó enn eftir nokkra vegalengd að Suðurstrandarvegi austan við Þórkötlustaðarhverfið í Grindavík. Vestan við byggðina er unnið að gerð leiðigarða. Þar er einnig verið að sprengja í burtu haft til að mögulegt hraunrennsli eigi greiðari leið til sjávar vestan við byggðina. Þar þarf einnig að lækka Nesveginn að hluta til að greiða leiðina.
Talsvert hraunrennsli hefur verið frá eldstöðinni. Hrauntunga náði að Melhólsnámu á dögunum og hraunið var fljótt að fylla námuna.
Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mælst síðustu daga
Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) hafa mælst í Höfnum og Grindavík síðustu daga. Þessi styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra.
Óvissa með framhaldið
Þó dregið hafi úr virkni í eldstöðinni síðustu sólarhringa er óvissa með framhaldið. Vísindamenn eru ekki sammála um framhaldið en hafa þó nefnt að gosið nái jafnvel ekki að lifa fram yfir páska.