Óvissa með Ameríkuflug næsta sumar
Hvorki Icelandair né Wow Air fengu alla þá afgreiðslutíma sem forsvarsmenn félaganna óskuðu eftir á Keflarvíkurflugvelli næsta sumar vegna flugs vestur um haf. Nýlegur úrskurður Samkeppniseftirlitsins flækir málin og talsmenn félaganna vilja lítið tjá sig um stöðuna sem komin er upp. Túristi.is greinir frá þessu.
Fyrir mánuði síðan fékk Wow Air flugrekstrarleyfi og af því tilefni var tilkynnt að félagið myndi bjóða upp á áætlunarflug til N-Ameríku á næsta ári. Stjórnendur Wow Air sóttu um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli næsta sumar fyrir komu véla frá Boston og New York milli klukkan tíu mínútur yfir sex og hálf sjö á morgnana. Félagið fékk hins vegar pláss fyrir báðar vélar klukkan rúmlega fimm. Icelandair fékk ekki heldur umbeðna tíma vegna flugs til nýrra áfangastaða í Kanada. Vélar frá Edmonton og Vancouver verða því að lenda fimm mínútur í fimm á morgnana sem er mun fyrr en forráðamenn Icelandair höfðu óskað.
Í svari frá Isavia, rekstraraðila flugvallarins, segir að á háannatíma næsta árs verði ekki næg flugvélastæði við flugstöðina á stuttu tímabili dagsins. „Eldri afgreiðslutímar halda sér í samræmi við áunninn sögulegan rétt. Afgreiðslu nýrra fluga er skipað beggja vegna háannatíma eftir því sem best hentar að mati samræmingarstjóra," segir jafnframt í svari Isavia til Túrista.
Ekki í takt við úrskurð Samkeppniseftirlitsins
Í vor sendu forsvarsmenn Wow Air erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað var yfir því hvernig Isavia úthlutar flugfélögum afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stendur styr um leyfi til að fljúga til Evrópu milli klukkan sjö og átta á morgnana og vestur um haf milli klukkan 16 og 17:30. Icelandair hefur um langt árabil nýtt þessa tíma til að tengja saman flug milli Evrópu og N-Ameríku og stjórnendur Wow Air ætla að einnig að taka upp þetta fyrirkomulag. Í erindi félagsins segir: „...verði ekki orðið við kröfum Wow Air þá megi ljóst vera að fyrirhugaður samkeppnisrekstur í flugi á milli Íslands og Bandaríkjanna sé með öllu útilokaður."
Samkeppnisstofnun fellst á rök Wow Air og birti um síðustu mánaðarmót úrskurð sinn þar sem farið er fram á við Isavia að tryggja Wow Air tvo afgreiðslutíma við flugstöðina að morgni og seinnipartinn næsta sumar. Eins og kom fram hér að ofan þá fékk Wow Air ekki þessa afgreiðslutíma. Enda höfðu forsvarsmenn Isavia áður gefið út að þeir ætli að áfrýja úrskurði eftirlitsins því úthlutun afgreiðslutíma sé framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og stjórnendur Isavia telja sig ekki mega grípa inn í hana með þeim hætti sem krafist er í úrskurðinum.
Flugfélögin í lausu lofti
Forsvarsmenn Wow Air vilja lítið segja um þá stöðu sem komin er upp vegna úthlutunar á afgreiðslutímum né hver áform félagsins eru um flug til Boston og New York. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, segir í svari til Túrista að málið sé í ferli og ekki sé hægt að tjá sig um það að svo stöddu. Haft var eftir forstjóra Wow Air í grein Bloomberg fréttastofunnar fyrir þremur vikum síðan að félagið hyggist tilkynna um flug til Boston „á morgun", þ.e. 7. nóvember. Það hefur ekki verið gert með formlegum hætti samkvæmt því sem Túristi kemst næst og enn er ekki er hægt að bóka flug með Wow Air til Boston á vef félagsins.
Eins og áður segir fékk Icelandair ekki heldur þá tíma sem félagið óskaði eftir fyrir flug frá Vancouver og Edmonton. „Við erum að fara yfir þessi mál og vinnum að því að áhrifin verði sem minnst á áætlun okkar," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair aðspurður um stöðuna sem komin er upp vegna skorts á flugvélastæðum á Keflavíkurflugvelli.