Óviðunandi vinna við gatnakerfið skoðuð með verktökum
Tíðar hitabreytingar í veðurfari, rigningar, hiti og frost, ásamt miklum þungaflutningum um götur Reykjanesbæjar er ein helsta ástæða þess að götur bæjarins eru mjög slitnar eftir veturinn.
Verkfræðingur sem fór um götur Reykjanesbæjar segir margar götur bæjarins illa farnar og athygli vekur hvað margar nýframkvæmdir láta á sjá. Segir hann að það bendi til þess að ónóg þjöppun hafi átt sér stað eða óhæft fyllingarefni hafi verið notað.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði að margt í vinnu við gatnakerfið hljóti að teljast óviðunandi og munu bæjaryfirvöld ganga eftir því við verktaka. Árni segir að þrátt fyrir veðurfarsleg áhrif á gatnakerfið og þungaflutninga vegna framkvæmda sem hafi flýtiáhrif á slit á vegakerfinu, þá breyti það ekki því að bæjaryfirvöld ætlast til réttra vinnubragða.
„Við erum að fara yfir þessi mál með verktökum og jafnframt að skoða með sérfræðingum sterkari efni sem sjaldan hafa verið notuð hér,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í samtali við Víkurfréttir.