Óvenjulegur desembermánuður fyrir verslanir í Reykjanesbæ
Jólaverslunin gekk vel að sögn eigenda verslana á Hafnargötunni í Reykjanesbæ. Lokun götunnar vegna tökudaga á þáttaröðinni True Detective í byrjun desember hafði þó áhrif og þá hefur hluti jólaverslunar færst yfir í nóvember. Óveður skömmu fyrir jól setti einnig strik í reikninginn, svo mikið hjá stærri verslunum, eins og Nettó, að hillur tæmdust.
Fjóla Þorkelsdóttir, gullsmiður og eigandi Fjólu, lýsir desember svona: „Þessi mánuður var smá rússíbani sem endaði vel en ég var ánægð með jólaverslunina.“
Þær Steinunn Ýr Þorsteinsdóttir, einn af eigendum Skóbúðarinnar, og Hildur Kristjánsdóttir, ein af eigendum Kóda, taka undir með henni. „Við fengum svakalegt veður stuttu fyrir jól, það setti stórt strik í þetta hjá okkur í ár en síðustu dagarnir fyrir jól voru mjög góðir, ótrúlega gaman og fínt að gera,“ segir Hildur.
Steinunn segir jólatörnina hafa verið nokkuð góða og að hún hafi verið svipuð og undanfarin ár. Hildur hins vegar segir jólatörnina vera breytta frá því hvernig hún var hér áður fyrr. „Jólatörnin er orðin róleg, eða öllu heldur breytt. Fólk er farið að nýta sér afsláttardagana sem eru nokkrum vikum fyrir. Þannig að jólatraffíkin er orðin breytt og rólegri,“ segir Hildur.
Aðspurðar hvað hafi verið vinsælast í jólapakkann segir Fjóla það hafa verið skartgripi og þær Hildur og Steinunn segja hlý föt og vettlinga hafa endað undir trénu hjá mörgum.
Umfram allt ríkir þakklæti meðal eigenda verslana í Reykjanesbæ, fyrst og fremst fyrir velvild bæjarbúa. „Ég er stolt af bænum mínum, mér finnst alltaf vel tekið í það þegar búðirnar ákveða að vera með eitthvað skemmtilegt eins og kósýkvöld eða eitthvað slíkt þá eru bæjarbúar duglegir að mæta og það er rosalega mikilvægt. Það skiptir máli að vera með samstöðu þegar kemur að verslunum bæjarins,“ segir Hildur.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, segir að þetta hafi verið góð en krefjandi jól. „Síðustu helgina kyngdi niður snjó sem setti flutningakerfi um allt land úr skorðum og þrýsti jólasölunni á færri daga en við vonuðumst. Allir sem vettlingi gátu valdið tóku aukavaktir, keyrðu út heimsendingar, tóku á móti vörum, fylltu á en önnur verk sem þurfti að sinna sátu á hakanum. Á endanum gekk þó allt upp að lokum og allir enduðu í jólaskapi.“