Óvenjulegt í sumarlok - segir Ragnheiður Elín Árnadóttir
„Þessi prófkjörsbarátta er óvenjuleg að því leyti til að hún fer fram í sumarlok, á óhefðbundnum tíma. Þannig hefur hún verið bæði stutt og snörp en að sama skapi málefnaleg og hefur gengið vel. Ég finn fyrir miklum stuðningi alls staðar í kjördæminu og er afar þakklát fyrir það.
Við sjáum að nú eru viðfangsefnin önnur en fyrir síðustu kosningar, sem helgast af því að okkur hefur tekist að klára þau mál sem þá brunnu á kjósendum. Núna eru áherslumálin skýr - samgöngumál, heilbrigðis- og velferðarmálin brenna á kjósendum alls staðar í kjördæminu. Við sögðum fyrir síðustu kosningar að verðmætasköpun væri forsenda velferðar. Við höfum lagt áherslu á efnahagsmálin og atvinnumálin á þessu kjörtímabili og höfum því sterkan grunn til að byggja velferðina á. Það er verkefni næsta kjörtímabils,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra en hún býður sig í efsta sæti listans hjá sjálfstæðismönnum en prófkjör þeirra í Suðurkjördæmi verður laugardaginn 10. sept.