Óvenjuleg skipakoma í Grindavík
Um 330 þúsund laxaseiðum var í gær dælt úr landi frá Íslandsbleikju ehf í Grindavík út í sérstakt tankskip sem lá fyrir utan Stað. Skipakomur eru ekki algengar á þessum slóðum og því vakti skipið mikla athygli vegfarenda. Samanlagt var hátt í 600 þúsund laxaseiðum dælt út í skipið frá starfstöðum Íslandsbleikju í Grindavík og Núpum í Ölfusi.
Skipið er nú á leið með farminn til norður Noregs þar sem laxinn er alinn upp í 5 kíló. Um er að ræða 200 rúmmetra tankskip, sérhannað fyrir flutninga af þessu tagi en því var hleypt af stokkunum fyrir um hálfu ári. Ekki er von á því aftur til Grindavíkur fyrr en á sama tíma að ári.
Þess má geta að Íslandsbleikja, sem er í eigu Samherja, er stærsti framleiðandi bleikju í heimi. Íslandsbleikja sérhæfir sig í framleiðslu á bleikju, allt frá hrognum til fullunninna flaka, og er félagið með starfsstöðvar á Stað í Grindavík, Vatnsleysu á Reykjanesi, Öxnalæk í Ölfusi auk fullkominnar vinnslu fyrir bleikjuafurðir í Grindavík. Framleiðslugeta er 3.000 tonn af bleikju í 50.000 rúmmetra eldisrými.
Efri mynd: Skipið var ekki langt undan landi við Stað í Grindavik. Mynd/ÓS.
Neðri mynd: Fiskurinn á leið eftir dælukerfinu út í skip. Mynd/ÓS