Óvenju mikið líf hlaupið í Gunnuhver á Reykjanesi
Miklar breytingar hafa orðið á hverasvæði á Reykjanesi síðustu mánuði. Líklega eru það framkvæmdir við Reykjanesvirkjun sem valda því. Gufuvirkni í Gunnuhver er til að mynda meiri en verið hefur í um fjóra áratugi. Hverinn er meðal vinsælustu ferðamannastaða á Reykjanesi. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Jarðfræðingar íslenskra orkurannsókna tóku fyrst eftir þessum breytingum í júní í sumar og hafa fylgst með hvernum síðan. Í mati á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar á Reykjanesi sem gerð var fyrir Hitaveitu Suðurnesja sumarið 2002 segir að framkvæmdin á svæðinu hafi ekki sjáanleg áhrif á Gunnuhver en að óljóst sé hvort dæling jarðhita úr jörðu breyti virkni hveranna. Í sömu skýrslu segir að á bilinu 120-140.000 ferðamenn komi á Reykjanes árlega og að mikilvægustu staðirnir á svæðinu séu Valahnúkar, Valbjargagjá og Gunnuhver.