Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 3. febrúar 2002 kl. 22:17

Óveðursskemmdir á golfvellinum í Leiru

Talsvert tjón varð á Hólmsvelli í Leiru í ofsaveðrinum sem geisaði sl. laugardag og gekk sjór langt inn á golfvöllinn. Nýir varnargarðar á tveimur stöðum héldu hins vegar alveg.Ljóst er að sjór og meðfylgjandi drasl gekk yfir stóran hluta 4. brautar Hólmsvallar en þrjár holur liggja eftir strandlengjunni frá Bergvík að Hólmssundi sem er við 7. teig. Á milli þessara holna er 4. braut. Hún liggur að mestu leyti undir sjó og má sjá þara við brautarmörkin við röffið á 5. braut. Það er því ljóst að mikið hefur gengið á. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð varnargarða við 3. holuna, Bergvík, í nágrenni flatarinnar á 4. holu og svo við 7. teig. Á þessum stöðum stóðu varnargarðarnir sig gegn greipum Ægis. Mikill sjógangur var hins vegar yfir stóran part 4. brautar og hluta 7. teigs þar sem sjá má þara langt inn á land.
„Ég held að það hafi aldrei gengið sjór svona langt inn á völlinn áður og ljóst að við verðum að styrkja strandlengjuna með varnargörðum alla leiðina. Við höfum fengið styrki úr landbrotssjóði vegna framkvæmda sem taldar voru nauðsynlegar. Þeim er ekki lokið og nú verðum við að skoða þetta alvarlega og freista þess að halda áfram þeim framkvæmdum“, sagði Gylfi Kristinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja en hann skoðaði aðstæður í Leirunni í dag með fréttamanni Víkurfrétta.
Gylfi sagði að það væri mikil vinna framundan við hreinsun svæðisins en ekki væri ljóst hvað tjónið væri mikið.
Stutt er síðan menn voru að leika golf í Leiru, í blíðunni sem ríkt hefur í allan vetur. Þá voru menn að spila golf á iðagrænum Hólmsvellinum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024