Óupplýstir bæjarstarfsmenn firra Reykjanesbæ ábyrgð
Reykjanesbær firrar sig ábyrgð á tjóni sem varð í desember sl. þegar ljóskúpull féll úr ljósastaur við Ægisvelli og skemmdi bifreið. Tryggingafélag Reykjanesbæjar segir að bæjarfélagið beri ekki ábyrgð á tjóninu þar sem starfsmenn Reykjanesbæjar höfðu ekki vitneskju um að ljóskúpull í staur við Ægisvelli í Keflavík, né aðrir kúplar á svæðinu, væru lausir og áttu því ekki möguleika á að sporna við því tjóni.
Ljóskúpullinn féll úr staurnum í slæmu veðri sem gerði 27. desember. Kúpullinn féll á framrúðu á húsbíl og braut hana áður en hann rann yfir og beyglaði og rispaði vélarhlíf. Lögregla var kölluð til, sem og starfsmenn frá HS Veitum sem fjarlægðu kúpulinn og settu upp nýtt ljós í staurinn þegar veður lægði.
Þar sem það var ágreiningslaust í málinu að tjón á bifreiðinni varð vegna þess að ljóskúpullinn féll af ljósastaurnum við Ægisvelli og lenti á bifreiðinni, þá kom það tjónþolanum verulega á óvart að Reykjanesbær firri sig ábyrgð í málinu með því að bera fyrir sig að starfsmenn bæjarins hefðu ekki haft vitneskju um að ljóskúpullinn væri laus.
Það að ljóskúpull féll af ljósastaur og lenti á bifreiðinni veldur því þó ekki eitt og sér að tjónið sé bætt úr ábyrgðartryggingu Reykjanesbæjar.
„Fyrir liggur í málinu að starfsmenn Reykjanesbæjar höfðu ekki vitneskju um að umræddur ljóskúpull, né aðrir kúplar á svæðinu, væru lausir áður en umrætt tjón varð og áttu því ekki möguleika á að sporna við því að tjón yrði. Þá liggur fyrir í málinu að ekki höfðu borist neinar aðrar tilkynningar um að kúplar hafi fokið af staurum áður í þessu hverfi. Miðað við fyrirliggjandi gögn málsins er það því mat félagsins að ósannað þyki að Reykjanesbær beri ábyrgð á umræddu tjóni. Rétt er að benda á að í málum sem þessum hvílir sönnunarbyrðin á tjónþola að sanna að tjónvaldur hafi valdið tjóni með saknæmri háttsemi. Félagið telur slíka sönnun ekki liggja fyrir í þessu máli. Með allt framangreint í huga er óumflýjanlegt annað en að hafna bótaskyldu í málinu,“ segir í svari sem TM (Tryggingamiðstöðin) sendi til tjónþola.
Tjónþoli sagðist í samtali við Víkurfréttir ósáttur við niðurstöðuna sem TM hafi sent sér. TM er tryggingafélag bæði tjónþola og tjónvalds. Tjónþoli segir TM ekki hafa sýnt sér neinn samningsvilja í málinu. Það þurfi því sjálfsábyrgð tjónþola til að standa straum af viðgerðum á bílnum. Tjónþoli spyr einnig hvernig hann eigi að sanna saknæma háttsemi. „Er ætlast til að fólk klifri upp í staura eða banki þá til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi?,“ spyr tjónþolinn.
Tjónþoli var gestkomandi við Ægisvelli þegar tjónið varð. Íbúi í húsinu þar sem staurinn stendur segist ætla að skoða stöðu sína gagnvart eiganda ljósastaursins, Reykjanesbæ. Hann hafi ekki orðið var við sérstakt eftirlit með ljósastaurum eða kúplum í götunni sinni og hvort þeir séu lausir eða fastir. Hann spyr hversu oft slíkt eftirlit eigi að vera og hvar megi nálgast upplýsingar um ljósastaura bæjarins og hvaða staurar séu á ábyrgð bæjarins og hverjir séu á ábyrgð þeirra sem við þá leggja.