Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Otti stappar stálinu í Grindvíkinga
Mánudagur 6. nóvember 2023 kl. 11:35

Otti stappar stálinu í Grindvíkinga

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Grindvíkingur, stappar stálinu í Grindvíkinga með pistli sem hann skrifar á Facebook í gærkvöldi í ljósi þeirra atburða sem nú eru í gangi við Grindavík.

Pistill Otta er svohljóðandi:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í ljósi aðstæðna og þeirra atburða sem nú eru í gangi við Grindavík langar mig koma með smá persónulegt innlegg sem vonandi einhverjum þykir gagnlegt.

Það má segja að ég sitji við allar hliðar borðsins í þessu máli. Ég er sjálfboðaliði í björgunarsveit sem hefur tekist á við þrjú eldgos á stuttum tíma. Ég er formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hef kynnt mér allar áætlanir vel og tekið þátt í ýmsum undirbúningi með fullt af flottu fólki. Síðast en ekki síst er ég búsettur í Grindavík ásamt fjölskyldu minni og upplifi því ástandið sem hér er einnig í gegnum þau.

Ástandið er eiginlega óþolandi, fólk er að vakna um miðjar nætur við jarðskjálfta og það glymur sífellt í glösum og diskum upp í skáp við þessa þúsundir jarðskjálfta sem mælst hafa hér að undanförnu, nánast undir okkur. Svo þegar fólk fer á fætur og kíkir á frétta- eða samfélagsmiðla blasir við hver hamfarafyrirsögnin á fætur annarri og eftir þann lestur er eiginlega bara spurning um hver verður síðastur að forða sér úr bænum. Jarðfræðingar keppast við að túlka mælingar af Reykjanesinu eins og þeim sýnist og fjölmiðlarnir keppast svo við birta þessar túlkanir í öllum mögulegum sviðsmyndum. Það er sannarlega hlutverk fjölmiðla að skoða allar hliðar málanna og velta við öllum steinum en stundum mætti aðeins staldra við og skoða hvaða áhrif þessi fréttaflutningur hefur á fólkið sem hér býr.

En hver er raunveruleg staða núna?

Það sem við vitum er að það er kvika að safnast undir okkur og það er hellingur af jarðskjálftum því tengdu. Hvað gerist í framhaldinu veit enginn og það er í raun ómögulegt að segja til um. Þess vegna keppast jarðfræðingar og sófasérfræðingar við að varpa upp sem verstum sviðmyndum því enginn getur raunverulega sagt til um hvað muni gerast.
Ég er nokkuð viss um að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir andlegri líðan Grindvíkinga þessa dagana. Ég gæti ímyndað mér að hér séu hundruðir einstaklinga sem lifa í sífelldum ótta við það að missa heimili sitt eða þurfa að flýja það sökum skorts á vatni eða hita. Þetta er ekkert grín, þetta eru raunverulegar áhyggjur fólks í bland við óreglulegan svefn og stöðuga jarðskjálfta. Þessi kokteill getur bara ekki verið góður.

Ég ætla ekki að draga úr alvarleika þessara aðstæðna sem við búum við en mig langar að skilgreina leikreglurnar aðeins betur:
Almannavarnir og Veðurstofa Íslands eru alltaf með bestu og áreiðanlegustu upplýsingarnar hverju sinni. Þar er ekkert kjaftæði í gangi og upplýsingar frá þeim alltaf skýrar og greinagóðar.
Það er fullt af fólki sem vakir á nóttunni til þess eins að fylgjast með mælum og láta vita ef eitthvað óvenjulegt fer að gerast. Þetta fólk vinnur á sólarhringsvöktum hjá Veðurstofu Íslands og eru sérfræðingar í málaflokknum.

Um leið og einhver raunveruleg hætta skapast verður brugðist tafarlaust við með viðeigandi hætti og það mun ekki fara framhjá neinum hvort sem hann er vakandi eða sofandi.

Við erum með rýmingaráætlanir ef allt skyldi fara á versta veg. Þannig erum við undirbúin og allir meðvitaðir um hvernig eigi að bregðast við.

Það er staðreynd að það væri búið að loka einhverjum vegum eða rýma eitthvað ef yfirvöld teldu ástæðu til. Líf og heilsa fólks er alltaf í fyrsta sæti og fólk getur treyst því.

Ef til þess kemur þá munum við takast á við þetta verkefni saman, fylgja fyrirmælum og tryggja öryggi hvers annars. Þangað til er lítið annað hægt að gera en halda áfram veginn.

Myndin sem fylgir er frá 10 ára dóttur minni sem var í Vatnaskógi um helgina og fékk frjálsan tíma til þess að teikna einhverja fallega mynd. Hún er ekki hrædd við eldgos eða hefur einhverjar sérstakar áhyggjur af þessu öllu. Börnin okkar hafa upplifað að hvorki jarðskjálftar né eldgos hér á svæðinu síðustu ár hafi skaðað neinn. Það ásamt samtali og fræðslu hefur skilað því að þau upplifa að það sé í raun lítið að óttast. Myndin er því eflaust teiknuð með eitthvað jákvætt í huga, ég er allavega brosandi á myndinni en það segir ýmislegt um ástandið ef eldgos er efst í huga 10 ára barns.

Verum jákvæð 😊