Otti Rafn stígur tímabundið til hliðar sem formaður Landsbjargar
Grindvíkingurinn Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem formaður félagsins fram yfir áramót til að huga að fjölskyldu sinni á óvissutímum.
Otti segir í samtali við fréttastofu RÚV að hann hafi tekið þessa ákvörðun með hagsmuni sína og fjölskyldu hans að leiðarljósi. Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, varaformaður, tekur við skyldum formanns félagsins á meðan, til og með 9. janúar 2024.
Otti er virkur félagi í björgunarsveitinni Þorbirni og tók þátt í rýmingaraðgerðunum á föstudagskvöld.
„Þetta er gert með hagsmuni mína og minnar fjölskyldu að leiðarljósi. Slysavarnarfélagið þarf líka að hafa forystuna í lagi,“ segir Otti í samtali við fréttastofu. Hann segir ákvörðunina hafa verið erfiða.
„Að sjálfsögðu. Það er bara þannig. En mér finnst eðlilegt að taka svona ákvörðun á þessum tímapunkti. Einblína á færri hluti.“
Frá þessu er greint á ruv.is