Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Óttast úrgangsolíu og þrávirk efni í jarðvegi
    Tjara vellur úr jarðvegi á svæðinu þar sem grafið er á Flugvelli. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Óttast úrgangsolíu og þrávirk efni í jarðvegi
    Stórir ruslahaugar Varnarliðsins grafnir upp við Flugvelli.
Fimmtudagur 18. maí 2017 kl. 11:39

Óttast úrgangsolíu og þrávirk efni í jarðvegi

-Tjara flæðir úr jarðvegi og framkvæmdir stöðvaðar

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur stöðvað framkvæmdir við gatnagerð ofan Iðavalla í Keflavík, á svokölluðum Flugvöllum. Þar hafa gamlir ruslahaugar frá bandaríska hernum verið grafnir upp á stóru svæði. Tjara vellur úr jarðveginum og mikið af járnarusli hefur komið upp úr jörðinni. Heilbrigðiseftirlitið óttast að þrávirk efni eins og PCB kunni að vera þarna í jörð. Vísindamenn taka nú jarðvegssýni til að sjá hvaða efni eru þarna í jörð. Þarna gæti risavaxið mengunarslys verið að koma í ljós.

Magnús H. Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja staðfesti í samtali við Víkurfréttir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Þegar verkið var stöðvað hafði umtalsverðu magni af jarðvegi sem innihélt ýmis konar járnarusl verið ekið brott af svæðinu og losað á svæði á Ásbrú. Verktakafyrirtækið ÍAV annast framkvæmdir á svæðinu fyrir Reykjanesbæ. Við Flugvelli hefur flestum lóðum verið úthlutað en byggingaframkvæmdir áttu að hefjast í sumar. Það er nú í uppnámi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tjara lekur úr jarðvegi á svæðinu og sagðist Magnús óttast að þarna hafi verið urðuð tjara sem bandaríski herinn notaði m.a. við malbikun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma. Magnús segir að þetta séu stórir haugar sem hafi verið opnaðir. Miðað við það sem komið hefur upp af rusli úr haugunum þá óttist hann að þarna hafi m.a. verið urðaðir rafgeymar. Þá þurfi að hafa varann á með það að þarna sé að finna úrgangsolíu og þrávirk efni eins og PCB.

Úttekt er hafin á svæðinu þar sem m.a. eru skoðaðar loftmyndir frá fyrri tímum til að átta sig á umfangi hauganna. Þá er sýnataka úr jarðvegi einnig hafin en VERKÍS leiðir rannsóknina. Allar framkvæmdir á svæðinu hafa verið stöðvaðar fyrir utan einn veg á svæðinu.

Það voru starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sem komust sjálfir á snoðir um að ekki væri allt með felldu við gatnagerðina þegar þeir mættu vörubíl sem var að flytja jarðveg þar sem járnarusl stóð út úr farminum. Verið var að flytja jarðveginn á losunarsvæði sem ÍAV er með á Ásbrú.

Magnús sagðist í samtali við Víkurfréttir ekki hafa haft hugmynd um að þarna væru ruslahaugar frá bandaríska hernum. Þetta svæði hafi verið innan girðingar í áratugi. Hann segir að almenna reglan sé að láta gamla urðunarstaði vera. Erfitt sé að segja til um framhaldið á þessu svæði. Nú þurfi að ljúka rannsóknum áður en ákvörðun sé tekin um framhaldið.