Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óttast hraðakstur á Hringbraut og upplifði áfall við öll lætin
Maja Potkrajac og Sveinn Enok Jóhannsosn með barnavagninn við Hringbrautina þar sem umferðarslysið átti sér stað .
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 5. október 2020 kl. 11:15

Óttast hraðakstur á Hringbraut og upplifði áfall við öll lætin

Maja Potkrajac býr að Faxabraut 32a, á horni Faxabrautar og Hringbrautar, með Sveini manni sínum og þriggja mánaða syni, þar sem glæfralegur akstur jepplings endaði í hörðum árekstri á föstudagskvöldið 25. september sl. Hún lýsir aðstæðum þannig í samtali við Víkurfréttir að hún hafi verið að lesa í bók og var með þriggja mánaða son sinn við hliðina á sér þegar umferðarslysið varð fyrir utan heimili hennar.

Maja var stödd í bókinni þar sem alvarlegt bílslys hafði orðið þegar hún heyrði svakalegt hljóð fyrir utan gluggann sem var opinn. „Ég var ekki viss um hvort vörubíll hafði oltið eða þakið hafði fokið af stóru blokkinni við Faxabrautina. Það voru svo mikil læti og hár skellur. Ég hrökk við og fór strax út í glugga og sá þá vinnubílinn hans Sveins í klessu og kraminn fyrir utan húsið. Ég öskraði og kallaði á Svein sem hoppaði á fætur og kíkti út um gluggann án þess að trúa því sem hafði gerst,“ segir  Maja í samtali við blaðamann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún segir að þegar þarna var komið við sögu ætlaði hún að hlaupa út og bjarga fólkinu sem var í bílnum en hún þurfti að sinna barninu og enginn til að vera hjá því því Sveinn var kominn út úr húsi.

„Þá ætlaði ég að hringja á Neyðarlínuna en var að stimpla inn númerið þegar bæði lögregla og sjúkrabíll komu á staðinn,“ segir Maja

Hún er með barnið á brjósti og segist hafa fengið mikið áfall við öll lætin og óttaðist að missa mjólkina því brjóstið hafi verið orðið grjóthart út af áfallinu við að upplifa öll lætin fyrir utan gluggann. Hún fékk foreldra sína til að koma til sín og veita sér stuðning og líta eftir barninu svo hún kæmist út til Sveins sem var að huga að bílnum sínum sem var í klessu framan við heimili þeirra. Lögregla og sjúkralið voru komin með tök á vettvanginum þegar hér var komið við sögu.

Maja segir að umferðarslysið sem varð föstudagskvöldið 25. september fyrir utan heimili hennar sæki mjög á sig. Þá sérstaklega af því að hún fari oft yfir Hringbrautina á gangbrautinn við gatnamótin. Atvikið hafi orðið á þeim tíma að hún hefði allt eins getað verið þarna á ferðinni með barnið í vagni. 

„Við fjölskyldan hefðum getað verið þarna á ferðinni eða í raun hver sem er. Á hverjum einasta degi eru bílar að keyra þessa götu á yfir 50 km hraða. Oftar en einu sinni hef ég þurft að hlaupa yfir eða stoppa skyndilega af stressi þegar ég er að ganga yfir götuna við hringtorgið svo ekki sé keyrt yfir mig með barnið í vagninum,“ segir hún. 

Maja segist vona að sá sem slasaðist verði í góðu lagi „en ég vorkenni honum ekki fyrir að taka svona vanhugsaða ákvörðun að aka þarna með þessum hætti. Vildi þessi einstaklingur drepa sjálfan sig eða aðra?,“ spyr Maja og er reið.

„Reiðin er að gjósa upp í mér. Það eru bæði skólar og leikskóli ekki svo langt frá, það er bara allt í kringum þessa helvítis götu þar sem fólk keyrir eins og það sé á Reykjanesbrautinni og engin hraðhindrun er sett og enginn lögreglubíll hefur sést mæla hraða og sekta fólk einmitt hér þar sem slysið gerðist. Einmitt hér er oft bremsað harkalega eða gefið í,“ segir Maja Potkrajac, íbúi að Faxa-braut 32a, í samtali við Víkurfréttir.