Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 13. mars 2001 kl. 09:52

Óttast ekki samkeppni

Mikill vaxtabroddur er í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og hafa hvalaskoðunarferðir notið mikilla vinsælda á síðustu misserum. Síðastliðinn sunnudag bættist nýr bátur í flotann, Hafsúlan, en eigandi hans er Hvalstöðin og fleiri. Skipið rúmar um 150 manns og er þar af leiðandi stærsta skip sinnar tegundar hér á Suðurnesjum. Báturinn er 180 tonna tvíbolungur og í honum eru tvær 1100 hestafla vélar. Hafsúlan mun fara í sína fyrstu siglingu í apríl.
Að sögn Einars Steinþórssonar, framkvæmdastjóra SBK er báturinn skemmtilega útbúinn fyrir veislur fyrir fyrirtækjahópa, klúbba, stórfjölskyldur og alla þá sem vilja eiga skemmtilegan dag á sjó.
„Á þessum markaði eru fleiri aðilar, en við höfum ákveðna sérstöðu með þessu skipi. Það er mjög vel útbúið til að taka á móti stærri hópum og við útvegum mat og veitingar um borð“, segir Einar.
Óttist þið ekki samkeppni?
„Hvalstöðin hefur verið í rekstri í þrjú ár og gengið vel. Það er ástæðan fyrir þessari stækkun nú. Markaðurinn hefur kallað á stærri og betur búið skip og það erum við að uppfylla núna. Við munum nú fara í markaðsátak fyrir sumarið og kynna þetta nýja skip vel. Samkeppnin er mjög hörð og kröfur viðskiptavinanna að aukast að sama skapi. Við teljum að markaðurinn geti og muni stækka mikið ennþá, þetta er í raun rétt að byrja.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024