Óttast að vélarvana flutningaskip ræki upp í fjöru á Garðskaga
Um kl. 03:00 í nótt höfðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við flutningaskipið Brúarfoss þar sem skipið var statt V-af Garðskaga í hefðbundinni siglingaleið í um 6 sjómílna fjarlægð frá landi. Tóku varðstjórar eftir í ferilvöktunarkerfum að skipið var komið á rek. Kom þá í ljós að skipið átti við vélavandamál að stríða og voru vélstjórar að vinna í málinu.
Ákveðið var að kalla strax í varðskipið Ægi sem var statt S- af Grindavík auk þess var haft samband við togarann Höfrung 3 sem staddur var á Stakksfirði. Voru skipin beðin um að sigla með auknum hraða á staðinn.
Þar sem dróst að koma vélum skipsins í gang og skipið rak hratt að landi var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í viðbragðsstöðu á Garðskaga og er enn í viðbragðsstöðu.
Einnig voru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu kallaðar út og haft var samband við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem upplýsti lögreglu á svæðinu.
Mjög slæmt var á staðnum, Vestan stormur og ölduhæð 7 metrar.
Var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar allt ferlið í nánu samstarfi við öryggisnefnd Eimskipafélags Íslands.
Þegar Brúarfoss átti um 2 sml eftir upp að grynningum lét skipið akkeri falla sem hægði á reki. Jafnframt var Höfrungur 3 þá kominn að honum en varðskipið Ægir átti um 1 klst siglingu eftir að skipunum. Vélar Brúarfoss komust um það leiti í gang og sigldi skipið í átt frá landi til að koma sér úr hættu í fylgd Höfrungs 3.
Siglir skipið nú til suðurs frá Reykjanesi, á leið til Vestmannaeyja í fylgd varðskipsins Ægis.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í björgunarstöðinni í Sandgerði í morgun og þegar þyrlan TF-GNA yfirgaf Sandgerði eftir að viðbragðsstöðu var aflétt. Efsta myndin sýnir siglingaleið skipsins og þá leið sem skipið rak eftir að það varð vélarvana.
Brúarfoss var ótrúlega stutt frá landi þegar tókst að koma aðalvél skipsins í gang að nýju. Myndin er tekin frá Garðskaga.
Björgunarsveitarmenn og bæjarstjórinn í Garði fara yfir málin í björgunarstöðinni í Sandgerði.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fer um borð í þyrluna eftir að viðbúnaði var aflétt í Sandgerði.
TF-GNA lenti á grasbala rétt hjá höfninni í Sandgerði.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson