Ótrúlegur slóðaskapur
Byggingartími og frágangur ákveðinna nýbygginga hefur verið mörgum bæjarbúum þyrnir í augum þar sem sumir húsbyggjendur virðast draga allt of lengi að ljúka framkvæmdum. Dæmi um þetta Þverholt 5 í Keflavík, en bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók málið fyrir á fundi sínum sl. þriðjudag og nú hefur núverandi eiganda verið veittur frestur til 1. ágúst 2001 til að ljúka við frágang hússins.
Forsaga málsins er sú að Margeiri, fyrrum eiganda veitingastaðarins Keisarans við Laugarveg, var úthlutað lóðinni árið 1986 og þremur árum síðar fékk hann byggingarleyfi. Árið 1991 var aðeins búið að steypa kjallarann og gólfplötu 1. hæðar en síðan gerðist ekkert meira. Fet ehf. keypti af Margeiri í ágúst 1996 og tveimur árum síðar keypti núverandi eigandi, Ómar Ástþórsson eignina. Ómar hefur nú lokið við að steypa aðra hæðina en nágrannar eru samt sem áður óhressir með framvinduna þar sem hverfið er löngu frágengið og umrædd húseign sker sig því nokkuð úr.
Ómar hefur sótt um að breyta eigninni í tvær íbúðir þar sem hún er um 400 fermetrar að stærð. Skipulags- og byggingarnefnd tók málið til umfjöllunar 16. nóvember sl. og lagði til að deiliskipulagi yrði breytt umsóknin samþykkt.
Nefndarmaðurinn Sigurður H. Ólafsson vildi að eftirfarandi kæmi fram: „Þó ég sé yfir höfuð mótfallinn þeirri vinnutilhögun að deiliskipuleggja einstakar lóðir, þá greiði ég atkvæði með tillögunni ef að það verði til þess að ótrúlegum slóðaskap af hálfu lóðarhafa og bæjaryfirvalda við byggingu þessa húss, taki einhvern tíma enda.“
Ólafur Thordersen (S) kom með fyrirspurn á fundi bæjarstjórnar um hvort ekki giltu einhverjar reglur um hversu lengi menn hefðu til að ganga frá húsum og lóðum. Ellert Eiríksson (D) sagði að yfirleitt væri gert ráð fyrir að menn kláruðu innan tveggja ára frá því að bygging hefst. „Ef frágangur dregst óhóflega mikið þá getur bæjarfélagið tekið eignarnám og greitt eigendum skaðabætur en því hefur sjaldan verið beitt“, sagði Ellert.