Óskað eftir upplýsingum um fjármál Reykjanesbæjar
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur óskað eftir upplýsingum um misræmi í fjárhagsáætlun og ársreikningum Reykjanesbæjar auk þess sem hún hefur beðið um upplýsingar varðandi sölu á Vatnsveitu Reykjanesbæjar í fyrra.
Nefndin óskaði einnig eftir skýringu á þróun í fjármálum 22 annarra sveitarfélaga.
Nefndin kannaði ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2003 með hliðsjón af fjárhagsáætlun ársins og fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. Ákvað nefndin að skrifa 23 sveitarfélögum og óska m.a. eftir upplýsingum um hver þróunin hefur verið í fjármálum sveitarfélagsins á árinu 2004 í samanburði við fjárhagsáætlun ársins og/eða upplýsingum um hvernig hlutaðeigandi sveitarstjórnir hyggjast bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins vegna reksturs og/eða fjárhagsstöðu. Sveitarstjórnum var gefinn tveggja mánaða frestur til að svara erindinu.
„Merki um að eitthvað sé ekki í lagi.“
„Það sem nefndin aðallega að spyrja um var það af hverju fjárhagsáætlunin stóðst ekki og af hverju frávikið á ársreikningnum var svona miklu meira en var lagt upp með,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir. „Þetta eru einmitt hlutir sem við úr minnihlutanum höfum verið að benda á að stóðust ekki. Það eru ýmsar skýringar á þessu en við teljum þetta vera slælega fjármálastjórnun og framúrkeyrslu sérstaklega á síðustu mánuðum ársins.“ Kjartan segir fyrirspurn nefndarinnar þarfa áminningu um að eitthvað þurfi að taka til bragðs í fjármálastjórn bæjarins. „Þetta er varúðarmerki sem við þurfum að taka alvarlega og meirihlutinn þarf að halda miklu betur á spilunum en þeir hafa gert í fjármálum bæjarins. Það er alveg ljóst að fyrst að við erum komnir á þennan lista eftirlitsnefndarinnar er það merki um að eitthvað er ekki í lagi og við þurfum að komast út af þessum lista eins og skot.“ Kjartan sagði að lokum að þrátt fyrir að menn geti skýrt misræmið milli áætlana og ársreikninga með ýmsum hætti, breyti það því ekki að menn geti ekki endalaust keyrt framúr og réttlætt það svo eftirá. „Menn lifa ekki lengi þannig.“
Fjármálin í góðum höndum
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður bæjarráðs, lítur öðrum augum á bréf eftirlitsnefndarinnar en Kjartan og vísar frá öllu tali um slælega fjármálastjórnun. „Ég bendi á að niðurstöður ársreikningsins frá í fyrra voru mjög hagstæðar. Nefndin gerir athugasemdir ef eiginfjárhlutfall sveitarfélaga er ekki nógu hátt eða skuldir á hvern íbúa of háar, en þessar tölur eru allar í góðu lagi hjá okkur. Þeir gerðu ákveðnar athugasemdir við það að áætlunin og niðurstaðan voru ekki í samræmi og ég get ekki neitað því að ákveðið misræmi var á. Það eru svo sem ýmsar skýringar á því, m.a. miklar tilfærslur á fjármunum og annað sem mun verða skýrt í svarinu til nefndarinnar.“
Böðvar bætti því við að staðan myndi skýrast frekar 1. nóvember á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þegar öll sveitarfélög munu leggja fram tölur sem hægt verði að bera saman. Þá verða menn að skoða þær og svara fyrir það hvernig staðan verður hjá Reykjanesbæ þá.
„Ég hefði meiri áhyggjur af því ef athugasemdir nefndarinnar væru vegna þess að staðan væri slæm eða eiginfjárstaðan og lág eða skuldir of háar. Það væri áhyggjuefni, en athugasemdirnar eru útaf misræmi í áætlunum og niðurstöðu og vegna þess að þeir fengu ekki þær upplýsingar sem þeir vildu fá varðandi sölu vatnsveitunnar. Það er hlutur sem við getum lagað.“
Loftmynd: Oddgeir Karlsson