Óskað eftir öllum lyklum
Í gær var óskað eftir að íbúar Grindavíkur myndu afhenda húslykla sína til þess að hægt sé að kanna ástand hitakerfa fasteigna í Grindavík. Þá var óskað eftir húslyklum á ákveðnu svæði í Grindavík, en þrátt fyrir það gátu allir íbúar skilað af sér lyklum sem þess óskuðu.
Þau sem ekki hafa nú þegar komið með lykla geta gert það á næstu dögum í Þjónustumiðstöð Almannavarna í Tollhúsinu við Tryggvagötu (opnunartími frá 10-17) eða í húsnæði Brunavarna. Suðurnesja að Flugvöllum 33 í Reykjanesbæ. Mjög margir íbúar hafa nú þegar skilað af sér lyklum en að þessu sinni er óskað eftir öllum húslyklum.
Eins og áður hefur komið fram þá hafa Almannavarnir fengið til liðs við sig viðbragðsaðila pípulagningamanna í þetta mikilvæga verkefni. Almannavarnir vilja þakka öllum þeim fjölda af iðnðaðarmönnum sem hafa komið að þessu verkefni síðustu daga, starf þeirra hefur verið ómetanlegt og verður áfram á næstu dögum. Búið er að koma á heitu vatni á langstærsta hluta Grindavíkur sem í ljósi kuldatíðar var forgagnsverkefni til að koma í veg fyrir tjón á húsum.
Eins og fram kom í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Reykjanesi fyrr í dag þá er ekki talið forsvaranlegt að hleypa íbúum inn í Grindavík en viðbragðsaðilum og þeim sem vinna að verðmætabjörgun sem þetta verkefni telst til.
Almannavarnir vilja taka fram að það er ábyrgðarhlutverk að taka á móti húslyklum að húseignum fólks, því er vert að taka fram að mjög vel verður gætt af lyklunum. Síðar verður kynnt með hvaða hætti lyklum verður skilað.
Móttaka lykla af öllum húseignum í Grindavík næstu daga er í Þjónustumiðstöðinni við Tryggvagötu (10-17) og á Slökkvistöðinni í Reykjanesbæ við Flugvelli.