Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óskað eftir að leitað verði á sprengjusvæði
Þriðjudagur 15. apríl 2003 kl. 14:42

Óskað eftir að leitað verði á sprengjusvæði

Á laugardag sprengdi sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sprengju sem þrír 12 ára drengir fundu við Háabjalla á föstudag. Um var að ræða sprengjuvörpu líkt og notaðar voru í Víetnamstríðinu, en sprengjan innihélt 1,5 kíló af sprengiefni. Í kjölfar þess að sprengjan fannst óskaði Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri Vatnsleysustrandarhrepps eftir því við Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins að svæðið yrði hreinsað en það er skilgreint sem útivistarsvæði. Í samtali við Víkurfréttir sagði Jóhanna að hún hefði átt góðan fund með fulltrúum Varnarmálaskrifstofu í gær.„Þeir voru búnir að kynna sér málin mjög vel og m.a. láta Aðmírálinn hjá Varnarliðinu vita af sprengjufundinum.Á þessum fundi setti ég fram kröfu um það að svæðið yrði hreinsað aftur og í framhaldi af því yrðu sett upp aðvörunarskilti. Það er algjört forgangsmál að svæðið verði hreinsað og við búumst við svari fljótlega.“

Jóhanna segir að nú sé verið að afla upplýsinga um hreinsunarstörf sem fóru fram á svæðinu árin 1986 og 1996. Jóhanna segir að hún hafi lagt á það ríka áherslu að hreinsunarstörf hæfust sem fyrst og á hún von á svari frá Varnarmálaskrifstofunni innan tíðar.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Sprengjan sprakk með miklum hvelli á laugardag og myndaðist gýgur eftir sprenginguna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024