Óskað eftir ábendingum um hagræðingu frá íbúum Reykjanesbæjar
Reykjanesbær mun óska eftir ábendingum um hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins frá íbúum og geta þeir sent inn tillögur á netfangið [email protected] eða skilað þeim í þjónustuver Reykjanesbæjar fram til mánudagsins 27. september n.k. Af þessu tilefni hefur Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ritað bæjarbúum bréf og óskað eftir niðurskurðartillögum.
Ágæti íbúi Reykjanesbæjar
Undirbúningur atvinnuverkefna sem skapa munu á þriðja þúsund íbúum vel launuð störf, hefur enn dregist með alvarlegum afleiðingum fyrir tekjumyndun bæjarsjóðs á þessu ári. Hér er um að ræða uppbyggingu álvers, kísilvers, gagnavers, ECA flugverkefni og einkasjúkrahúss, svo helstu stórverkefnin séu nefnd. Reykjanesbær hefur á undanförnum árum unnið dyggilega að stuðningi við uppbyggingu þessara verkefna og áætlaði að skatttekjur af störfum þeim tengdum tækju að berast bæjarsjóði á seinni hluta þessa árs. Það er ekki að gerast.
Reykjanesbær hefur undanfarin ár treyst á að þannig tækist að snúa hinu mikla atvinnuleysi yfir í öfluga atvinnuuppbyggingu og þess vegna treyst sér til að fjármagna ýmis verkefni af arðgreiðslum og með því að ganga á eignir sveitarfélagsins. Þótt enn sé svigrúm til þess, er ógjörningur að halda slíku áfram þegar alger óvissa ríkir nú um framvindu margra þessara verkefna. Þrátt fyrir gott aðhald í rekstri er nauðsynlegt að auka niðurskurð verulega. Leitað er til þín um ábendingar sem geta sparað í rekstri.
Vinsamlega sendu ábendingar þínar á netfangið [email protected] eða komdu þeim til skila í Þjónustuver Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 fyrir mánudaginn 27. september n.k.
Við þökkum þér fyrir þátttökuna.
Árni Sigfússon
bæjarstjóri