Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óska skýringa á ráðningu
Mánudagur 14. janúar 2008 kl. 12:13

Óska skýringa á ráðningu

Fulltrúar A-listans í Reykjanesbæ hafa efasemdir um ráðningu dóttur Þorsteins Erlingssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í stöðu starfsþróunarstjóra bæjarins. Hafa þeir farið fram á gögn er lúta að ráðningunni. Þetta kemur fram í DV í morgun þar sem fjallað er um málið.


Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans, segir í samtali við DV  að málið lykti af siðferðislegum bresti bæjarstjórnar. Hann segir að þegar kjörnir fulltrúar hafi hagsmuna að gæta eigi þeir að hugsa sig tvisvar um áður en nákominn ættingi er ráðinn í starf hjá sveitarfélagi.


Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir Capacent Gallup hafa lagt mat á hæfni umsækjenda. Hann segir dóttir Þorsteins hafa verið ráðna vegna þess að hún hafi verið talin hæfust.


Alls sóttu 22 einstaklingar um stöðuna. Af þeim taldi Capacent þrjá hæfa til að gegna stöðunni. Samkvæmt áliti Capacent þótti umræddur umsækjandi, dóttir Þorsteins, hæfari en annar einstaklingur sem einnig er með kennaramenntun. Sá þriðji dró umsókn sína til baka áður en ráðningarferlið hófst, að því er fram kemur í DV.


Væntanlega verður fjallað um málið á bæjarstjórnarfundi sem er á morgun, þriðjudag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024