Óska leyfis til frekari uppbyggingar
- á tjaldstæðinu í Sandgerði
Eigendur i-Stay ehf. hafa óskað heimildar bæjaryfirvalda til frekari stækkunar og uppbyggingar á tjaldsvæði bæjarins með heils árs þjónustu í huga. Uppbyggingin felst í fjölgun úr 4 smáhýsum í 8 og byggingu nýs þjónustuhúsnæðis fyrir þau.
Til að gera þessa stækkun mögulega óskar i-Stay eftir heimild til að stækka svæðið fyrir smáhýsin m.a. með því að fara inn í svokallaða Gulllág (til norðausturs). Markmið i- Stay er að framkvæmdin verði tilbúin fyrir sumarið 2016 og óskar fyrirtækið því eftir samþykki og leyfi frá bæjaryfirvöldum.
Erindi i-Stay ehf. um leyfi til frekari uppbyggingar var vísað til sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingarmála og jafnframt til umsagnar í húsnæðis-, skipulags- og byggingarráði og atvinnu-, ferða- og menningarráði. Málið verður svo lagt að nýju fyrir næsta fund bæjarráðs Sandgerðis.