Óska eftir nýju æfinga- og útivistarsvæði
Knattspyrnudeild Reynis hefur óskað eftir eftir því við bæjarstjórn Sandgerðsbæjar að svæðið neðan Miðtúns verði gert að æfinga- og útivistarsvæði. Ástæðan er sú að álag á knattspyrnusvæði félagsins er of mikið á vorin að mati deildarinnar þar sem gamli malarvöllurinn hefur nú verið tekinn undir tjaldsvæði. Knattspyrnudeildin býður fram starfskrafta sína til að sjá um þökulagningu á svæðinu gegn því að Sandgerðisbær sjái um undirvinnu og leggi til þökur.
Bæjarráð hefur falið byggingarfulltrúa að gera fjárhagsáætlun og leita tilboða vegna þessa erindis og með hliðsjón af þeim gögnum verður málið afgreitt á næsta fundi bæjarstjórnar.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir knattspyrnusvæði Reynis í Sandgerði.