Óska eftir lengri fresti
- Viðræður við kröfuhafa standa enn yfir
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að óska eftir frekari fresti til að taka afstöðu til þeirrar tillögu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að leggja til við innanríkisráðherra að skipa bænum fjárhaldsstjórn. Fulltrúar meirihluta í bæjarstjórn lögðu á fundinum fram bókun þess efnis að fá lengri frest þar sem viðræður við kröfuhafa standi enn yfir. Í tillögunni er ekki tekið fram hversu langan frest bæjarstjórn óskar eftir að fá, heldur er það látið í hendur Eftirlitsnefnarinnar að ákveða það.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í minnihluta bæjarstjórnar lögðu fram aðra bókun sem líka felur í sér beiðni um frest en einnig að mikilvægt sé fyrir bæjarfélagið að vinna nýja aðlögunaráætlun þar sem sú síðasta sé frá árinu 2013 og byggð á öðrum forsendum er nú eru. Þá vísuðu Sjálfstæðismenn til þess að í bréfi frá Eftirlitsnefndinni þar sem sveitarfélaginu er boðið að gera athugasemdir við þá tillögu að leggja til við innanríkisráðherra að skipa fjárhaldsstjórn sé vísað til þess að raunhæf aðlögunaráætlun hafi ekki verið lögð fram. Meirihlutinn hefur hins vegar ákveðið að ráðast ekki í gerð nýrrar aðlögunaráætlunar fyrr en niðurstaða samninga við kröfuhafa er í höfn.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs í pontu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær.