Óska eftir íbúðabyggð fyrir eldri borgara í Garði
Jórunn Alda Guðmundsdóttir og Kristjana Kjartansdóttir fulltrúar FEBS í öldungaráði Suðurnesjabæjar hafa lagt fram bókun í ráðinu þar sem lagt er til að nú þegar verði farið í það að skipuleggja íbúðabyggð fyrir eldri borgara í Suðurnesjabæ þar sem einnig verði félags- og þjónustumiðstöð.
„Við leggjum til við bæjarráð að nú þegar verði farið í það, að skipuleggja íbúðabyggð fyrir eldri borgara, þar sem gert yrði ráð fyrir auk íbúða, félags- og þjónustumiðstöð, góðum göngustígum og fallegu umhverfi. Undirritaðar horfa til byggingarsvæðis í Garði þar sem Bragi Guðmundsson byggingarverktaki hefur byggt parhús sem henta vel eldri borgurum. Rétt að benda á að margir eldri borgarar búa nú þegar á þessu svæði og munu þeir án efa fagna því að fá fallega skipulagt svæði, ásamt félagsmiðstöð í nágrennið,“ segir í bókun þeirra Jórunnar og Kristjönu.
Þá hvetja þær að til að farið verði markvisst í undirbúning þess að eignarhald íbúða í Miðhúsum verði á höndum Suðurnesjabæjar og að unnið verði við skipulag að viðbyggingu við Miðhús (til norðurs við Suðurgötu) fyrir þjónustuíbúðir.