Óska eftir fundi í velferðarráði eftir sumarleyfi
Ekki verður boðað til fundar í velferðarráði Reykjanesbæjar fyrr en sviðsstjóri velferðarsviðs, Hera Ósk Einarsdóttir, er komin úr sumarleyfi. Hún er væntanleg úr leyfi þann 8. ágúst nk. Ísak Ernir Kristinsson, varabæjarfulltrúi og nefndarmaður í velferðarráði Reykjanesbæjar, hefur óskað eftir að velferðarráð komi saman til fundar til að ræða húsnæðisvanda í Reykjanesbæ og málefni hælisleitenda. Ísak óskaði eftir fundinum þann 23. júlí sl.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum geta tveir nefndarmenn óskað eftir aukafundi í ráðinu. Ísak Ernir Kristinsson og Ingigerður Sæmundsdóttir munu óska eftir fundinum þegar sviðsstjóri velferðarsviðs er kominn til starfa eftir sumarleyfi.
„Það er mikilvægt að sviðsstjóri velferðarsviðs, Hera Ósk Einarsdóttir, sé á fundinum,“ sagði Ísak Ernir í samtali við Víkurfréttir.