Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óska álits Skipulagsstofnunar um endurskoðun á umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2
Þriðjudagur 17. janúar 2023 kl. 18:45

Óska álits Skipulagsstofnunar um endurskoðun á umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2

Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga ákvað á fundi sínum í kvöld að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þurfi umhverfismat í heild eða hluta, vegna fyrirhugaðs framkvæmdaleyfis vegna Suðurnesjalínu 2, í ljósi þess að goshrina er nú hafin á Reykjanesi.

Á fundinum var jafnframt bókað að óskað væri eftir upplýsingum frá Landsneti um hver kostnaðarmunur er á valkosti B (jarðstreng með Reykjanesbraut) og valkosti C (loftlínu meðfram núverandi línu) og nánari gagna sem geri á hlutlægan hátt grein fyrir þeim áhrifum á kerfi Landsnets að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng þ.m.t. upplýsingum um hvar þörf sé á að leggja slíka strengi í framtíðinni sem mögulega geti haft áhrif á ráðstöfun jarðstrengja vegna Suðurnesjalínu 2.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá segir í bókuninni: „...Landsnet hf. er opinbert fyrirtæki, stofnað með lögum, starfar samkvæmt sérleyfi og er háð opinberu eftirliti. Fyrirtækið er í eðli sínu einskonar stjórnvald. Félaginu ber að koma fram í samræmi við það í samskiptum sínum aðra og gæta að jafnræði og hlutlægni. Félagið á ekki að reka einhverskonar áróðursherferð. Framganga fyrirtækisins gagnvart sveitarfélaginu, sem m.a. felst í því að halda fram órökstuddum fullyrðingum um að samfélagið á Suðurnesjum hafi orðið fyrir milljarða tapi, sem ætla má að fyrirtækið telji á ábyrgð leyfisveitanda, er því ekki til sóma og skapar vantraust og ótrúverðugleika. Eðlilegt væri að til þess bærir aðila s.s. Umboðsmaður Alþingis, aðrar eftirlitsstofnanir eða eigendur Landsnets könnuðu framgöngu félagsins í málinu.“

Bókunina má sjá í heild sinni hér að neðan.

Bókun nefndarinnar:

Áður en tekin verður endanleg ákvörðun í málinu óskar skipulagsnefnd eftir að Landsnet upplýsi um eftirfarandi atriði:

  1.  Hver kostnaðarmunur er á valkosti B (jarðstreng með Reykjanesbraut) og valkosti C (loftlínu meðfram núverandi línu).
  2.  Nánari gögnum sem geri á hlutlægan hátt grein fyrir þeim áhrifum á kerfi Landsnets að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng þ.m.t. upplýsingum um hvar þörf sé á að leggja slíka strengi í framtíðinni sem mögulega geti haft áhrif á ráðstöfun jarðstrengja vegna Suðurnesjalínu 2.

Auk framangreinds telur nefndin, í ljósi þess að goshrina er nú hafin á Reykjanesi, þ.e. gosið hefur tvisvar eftir að skýrsla um umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar var unnið, og að í málinu liggja fyrir gögn óháðra vísindamanna um að sú goshrina kalli á endurskoðun fyrri áætlana um staðsetningar á mikilvægum innviðum eins og Suðurnesjalínu 2, auk þess sem fyrir liggja misvísandi upplýsingar að mati nefndarinnar um öryggi valkosts C miðað við aðra valkosti m.t.t. náttúruvár, að nauðsynlegt sé, áður en endanleg ákvörðun verður tekin í málinu, að óska álits Skipulagsstofnunar á því, skv. 28. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana nr. 111 frá 2021, hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdarinnar í heild eða hluta. Nauðsynlegt sá að það liggi fyrir mat óháðs aðila á jarðvá á svæðinu m.t.t. þeirra valkosta sem uppi eru.

Óháð framangreindu en í tengslum við málið vill nefndin taka fram að hún undrast mjög framgöngu Landsnets síðustu vikur. sbr. m.a. fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi út þann 21 .desember sl. sem er ekki hægt að túlka sem neitt annað en áróður og tilraun fyrirtækisins til að fría sig ábyrg á þeim langvarandi töfum sem hafa orðið á lagningu Suðurnesjalínu 2 og með röngu að varpa ábyrgðinni á því yfir á Sveitarfélagið Voga. Slík framkoma sæmi ekki opinberu fyrirtæki.

Í því samhengi vill nefndin benda á að Landsnet hf. er opinbert fyrirtæki, stofnað með lögum, starfar samkvæmt sérleyfi og er háð opinberu eftirliti. Fyrirtækið er í eðli sínu einskonar stjórnvald. Félaginu ber að koma fram í samræmi við það í samskiptum sínum aðra og gæta að jafnræði og hlutlægni. Félagið á ekki að reka einhverskonar áróðursherferð. Framganga fyrirtækisins gagnvart sveitarfélaginu, sem m.a. felst í því að halda fram órökstuddum fullyrðingum um að samfélagið á Suðurnesjum hafi orðið fyrir milljarða tapi, sem ætla má að fyrirtækið telji á ábyrgð leyfisveitanda, er því ekki til sóma og skapar vantraust og ótrúverðugleika. Eðlilegt væri að til þess bærir aðila s.s. Umboðsmaður Alþingis, aðrar eftirlitsstofnanir eða eigendur Landsnets könnuðu framgöngu félagsins í málinu.“

Umsögn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, vegna nýrra gagna

Rökstuðningur og bókun Skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, 17. janúar 2023